134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Vaðlaheiðargöng.

[15:27]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil leggja fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra sem varðar Vaðlaheiðargöng — og þó fyrr hefði verið.

Í allmörg ár hefur verið til umfjöllunar og mikill áhugi á því á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsýslum að gera jarðgöng undir Vaðlaheiði. Félagið Greið leið ehf. var stofnað fyrir nokkrum árum af öllum sveitarfélögum á svæðinu og ýmsum fyrirtækjum til þess að vinna að málinu sem einkaframkvæmd. Samkvæmt könnun sem gerð var er gríðarlegur stuðningur við framkvæmdina, 76,3% telja framkvæmdina mjög mikilvæga og 15,4% frekar mikilvæga.

Í samgönguáætlun til fjögurra ára sem samþykkt var í þinginu í vor var samþykkt að verja 300 millj. kr. til verksins á árunum 2008–2010. 300 milljónir eru vissulega ekki miklir fjármunir en engu að síður vísbending um að stjórnvöld styddu verkið og síðan átti eftir að semja um einstaka þætti og Framsóknarflokkurinn beitti sér verulega í því að koma þessum 300 milljónum inn á samgönguáætlun.

Það skal tekið fram að þingmenn Norðausturkjördæmis og Greið leið ehf. hafa alla tíð rætt um þetta mál sem einkaframkvæmd. Þá gerist það í kosningabaráttunni að frambjóðandi Samfylkingarinnar, Kristján Möller, klýfur sig út úr hópnum og spilar því út að það sé hægt að fara strax í Vaðlaheiðargöng og þau skuli fara á hefðbundinn hátt inn í samgönguáætlun og vera gjaldfrjáls.

Nú kemst þessi hv. þingmaður og núverandi hæstv. ráðherra í þær sérstöku aðstæður að geta uppfyllt þetta kosningaloforð sitt sem samgönguráðherra og því spyr ég: Er þess að vænta að nú á vorþinginu verði lögð fram samgönguáætlun eða tillögur að breytingum á samgönguáætlun þar sem lögð verði fram tillaga um að leggja aukið fjármagn (Forseti hringir.) til verksins?