134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

strandsiglingar.

[15:38]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Það er eins hér og með Vaðlaheiðargöngin, það fæst ekki orð út úr hæstv. samgönguráðherra. Maður spyr eingöngu um hvað hann hyggist gera og hann segir að hann muni ekkert gera, hann hafi haft of stuttan tíma. Ég veit ekki betur en að hæstv. ráðherra hafi haft nokkur kjörtímabil og alla kosningabaráttuna til að undirbúa það að koma þessum málum af stað.

1.600 millj. í nýja ferju á næstu tveimur árum þýða að Vestmannaeyingar mega bíða eftir henni í 4–5 ár. Það er hreint út sagt allt of langur tími. Með því að leggja það á Vestmannaeyinga að bíða í 4–5 ár eftir ferjunni eru þeir settir áfram í átthagafjötra, átthagafjötra samgangna. Það eru líka brotin á þeim mannréttindi vegna búsetu þeirra sem Eyjamanna. Hæstv. ráðherra ætti að sjá sóma sinn í að drífa í að koma þessari ferju á koppinn. Hann ætti líka að sjá sóma sinn í því að hringja eitt símtal og auka ferðatíðnina milli lands og Eyja, sérstaklega á næturnar með vörur.