134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

umfjöllun um sjávarútvegsmál.

[15:54]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Auðvitað standa öll efnisleg rök til þess að kjósa án tafar í sjávarútvegsnefnd og láta gildandi lög hafa eðlilegan framgang. Auðvitað hefði verið hægt að hugsa sér þá leið ef meiri hluti hæstv. ríkisstjórnar hefði verið á þeim buxunum að leita eftir samstarfi eða samráði um hlutina að kjósa sérnefnd við þessar aðstæður ef að öðru leyti væri samkomulag eða sæmilegur friður um málsmeðferðina. En það er ekki upp á slíkt boðið. Það vekur reyndar athygli mína að hæstv. forseti svarar í engu því sem til hans er beint í þessum efnum. Við höfum beint spurningum og óskum til hæstv. forseta, bæði á fimmtudaginn og aftur nú, um að forseti standi í ístaðinu fyrir hönd Alþingis og láti ekki niðurlægingu þess gagnvart framkvæmdarvaldinu verða algerlega taumlausa. En auðvitað er það að gerast að framkvæmdarvaldið ákveður úti í bæ hvernig hlutirnir skuli vera og í tilkynningaformi berst Alþingi að það skuli veskú breyta sínu skipulagi eins og framkvæmdarvaldinu úti í bæ þóknast.

Það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. ráðherrar og virðulegur forseti hafi kynnt sér ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu um aðskilnað valdsins þar sem rík áhersla er lögð á það að valdið sé þrígreint og löggjafarvaldið sé sjálfstætt og óháð gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Mannréttindasáttmáli Evrópu er þjóðréttarlega skuldbindandi samningur og það er hægt að taka brot af honum fyrir Evrópudómstólinn. Það skyldi ekki vera að mönnum þar á bæ þættu þetta býsna sérkennileg samskipti nýrrar ríkisstjórnar við löggjafarþing sem við erum að upplifa þessa dagana. Allt ber þetta auðvitað að í rangri röð. Fyrst á hæstv. ríkisstjórn að móta og leggja fram hugmyndir sínar um breytta verkaskiptingu í Stjórnarráðinu, fá þær lögteknar, og í framhaldinu bregst Alþingi sjálft við og ákveður hvernig það endurmetur eða breytir skipulagi sínu í samræmi við það sem orðin er niðurstaðan með verkaskiptingu í Stjórnarráðinu. Auðvitað er hér byrjað algerlega á öfugum enda með því að henda inn í Alþingi frumvarpi um breytingu á þess eigin vinnureglum, þingskapalögunum, vegna þess sem ríkisstjórnin hafi ákveðið úti í bæ í hrossakaupum um ráðuneytaskiptingu. Hér er ekki hátt risið á hlutunum og það kemur ekki til greina að við förum að afgreiða þessi mál í tímapressu sem ríkisstjórnin býr sjálf til vegna þess að það er engin starfandi sjávarútvegsnefnd og engin starfandi efnahags- og viðskiptanefnd. Þá fyrst væri niðurlægingin fullkomin ef Alþingi tæki sér ekki þann tíma sem eðlilegur og nauðsynlegur er til að skoða þessi mál. Það verður gert, a.m.k. af okkar hálfu. Við áskiljum okkur allan rétt til að taka öll þessi mál til vandaðrar efnislegrar umfjöllunar og skoðunar í þingnefndum. Þetta er allt hluti af einum pakka eins og þetta ber að af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og auðvitað væri hið eina rétta að skoða þetta í sumar og haust og afgreiða þær breytingar á haustþingi sem niðurstaða verður um að gera.

Ég ítreka spurningu mína: Er forseti tilbúinn (Forseti hringir.) til að beita sér fyrir því að nú verði kosið í sjávarútvegsnefnd?