134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[16:53]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert fyrir okkur sem hér erum ný að afloknum kosningum að fylgjast með þessari umræðu. Hér hafa stjórnarandstæðingar haft uppi harða gagnrýni sem skipta má í þrennt.

Í fyrsta lagi er bent á algeran skort á samráði við undirbúning breytinga á þingsköpum.

Í öðru lagi er bent á að hér er verið að brjóta áralanga hefð, áratugalanga hefð hvað varðar undirbúning slíkra mála með því að frumvarpið er ekki lagt fram í nafni allra þingflokka, forsætisráðherra eða forseta fyrir þeirra hönd.

Í þriðja lagi hefur verið bent á að hér er byrjað algjörlega á öfugum enda með því að taka fyrst til umræðu breytingar á þingsköpum Alþingis sem eiga að leiða af breytingum á öðrum lögum sem ekki eru komin á dagskrá.

Það verður að segjast eins og er, virðulegi forseti, að viðbrögð ríkisstjórnarflokkanna við þessari gagnrýni hafa verið ærið snautleg. Hér hefur engu verið svarað sem málefnalegt má teljast. Einu svörin sem hér hafa komið fram eru þessi: Svona ætlum við að hafa þetta, já, um næstu áramót. Þingið á að afgreiða þetta svona, svo ætlum við að breyta hinu þegar við erum búin að finna einhverjar leiðir til þess.

Hér hefur aðeins einn 43 manna meiri hluta ríkisstjórnarflokkanna verið til andsvara. Mitt erindi í þennan ræðustól, virðulegi forseti, er að kalla eftir afstöðu samfylkingarmanna. Annar af tveimur flutningsmönnum þessa frumvarps er hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar. Hann hefur ekki verið mikið við umræðuna, virðulegi forseti, fremur en aðrir fulltrúar Samfylkingarinnar í þessum sal. Ég lýsi eftir afstöðu flutningsmanns og annarra samfylkingarþingmanna, þessara boðbera samræðulistarinnar í stjórnmálum. Mér finnst snautlegt að heyra ekkert frá þessum nýja ríkisstjórnarflokki.

En hér er nú í salnum einn hæstv. ráðherra úr bútaráðuneytinu, sem áður var lýst, og, eins og ég segi, virðulegi forseti, erindi mitt í þennan stól er ekki annað en að lýsa eftir viðbrögðum Samfylkingarinnar. Og ég þakka fyrir, þau munu í augsýn.