134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[17:09]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eflaust má deila um röð mála á dagskrá þingsins en ég geri ráð fyrir að forseti hafi viljað greiða fyrir því að hægt væri að kjósa þær þingnefndir sem á eftir að kjósa hér. Ég gat þess sérstaklega í máli mínu að frumvarp þetta leiddi af fyrirhuguðum breytingum á stjórnarráðslögunum. En það er jafnframt þannig og það vita menn sem hér hafa verið lengi í efnahags- og viðskiptanefnd m.a. að þar hefur verið mikið vinnuálag vegna þess að þangað koma þung frumvörp úr tveimur ráðuneytum. Það hefur verið rætt hér sérstaklega að rétt væri að taka viðskiptahlutann og setja hann annað og það gengur þá ágætlega upp í samræmi við breytingarnar á Stjórnarráðinu.

Það er eitt, virðulegi forseti, sem mönnum er tíðrætt um hér og það er að framkvæmdarvaldið sé að níðast á Alþingi rétt eins og ráðherrarnir í ríkisstjórninni séu ekki líka þingmenn og hafi ekki sinn rétt sem slíkir, rétt eins og þeir þingflokksformenn sem flytja þetta þingskapafrumvarp hafi ekki sama rétt og aðrir þingmenn. Það er afskaplega óviðeigandi hvernig hér er talað til annarra þingmanna. Þeim hættir nefnilega til þess sumum í stjórnarandstöðunni að tala um stjórnarandstöðuna sem Alþingi, að þingmenn í stjórnarmeirihluta séu hluti af framkvæmdarvaldinu en Alþingi sé stjórnarandstaðan. Þetta er alveg herfilegur misskilningur.