134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[17:23]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvort við eigum að fara að búa okkur undir að forsetar svari ekki spurningum. Þeir bregðist ekki við óskum þingmanna. Hér komu fram skýrar óskir í ræðum að minnsta kosti tveggja þingmanna áðan sem lögðu til að umræðunni yrði frestað, næsta mál á dagskrá tekið og það klárað og síðan umræðu um þetta mál lokið í framhaldinu þegar þær upplýsingar lægju fyrir sem boðaðar hafa verið að muni komi fram í framsöguræðu með næsta dagskrármáli.

Það er dálítið óvenjulegt að forsetar skuli ekki líta á það sem hluta af embættisskyldum sínum að bregðast við og svara spurningum frá þingmönnum. Þetta endurtekur sig hér aftur og aftur og væri fróðlegt að vita hvort þetta sé ný lína, ný afstaða sem forsetar hafa tekið upp, að virða ekki þingmenn svara þegar þeir bera fram spurningar eða óskir um tilhögun fundarhaldsins. Ég vildi gjarnan að forseti svaraði þessu. En kannski tilheyrir það hinni nýju hefð að forseti svari ekki þessu heldur, ekki frekar en öðru.