134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[17:36]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Frekar voru þetta nú fátæklegar upplýsingar um það hvað fólgið er í samkomulagi stjórnarflokkanna. Kannski var fyrsta setningin sú sem var best lýsandi fyrir þetta mál þegar hæstv. forsætisráðherra sagði að hér væri um að ræða áformaða breytingu á ráðuneytaskipan sem ríkisstjórnin hygðist beita sér fyrir. Það var kannski það eina bitastæða sem kom í raun og veru fram í ræðu hæstv. forsætisráðherra sem segir allt sem segja þarf um hversu óljóst þetta mál er og vanreifað af hálfu ríkisstjórnarinnar. Og hvers konar frumhlaup það er að vera að koma með þetta inn hér á Alþingi svona illa búið og byrja þar á öfugum enda, byrja á því að hlutast til um þingsköp og innra skipulag mála hér á þingi.

Síðan var áhugaverð hin sögulega upprifjun hæstv. forsætisráðherra en hann rifjaði hér ágætlega upp arfleifð Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, í sambandi við stjórnarráðslögin. Hvað var það nú sem knúði Bjarna Benediktsson lagaprófessor til þess að flytja sínar tillögur um Stjórnarráðið á sínum tíma? Það var það að þessi mál voru komin í algjörar ógöngur vegna þess að í pólitískum hrossakaupum við stjórnarmyndanir á 5., 6. og 7. áratugnum var verkefnum hent á milli ráðuneyta vegna þess að menn höfðu þar algjörlega óbundnar hendur. Sá mæti maður Bjarni Benediktsson sá að þetta gat ekki gengið svona til. Það varð að koma einhverri festu í þessi mál og lagði til að ráðuneytum yrði hvorki komið á né þeim skipt nema með lögum frá Alþingi.

Nú er það formaður Sjálfstæðisflokksins, líka lögmaðurinn, hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde, sem leggur til að hverfa frá þessari arfleifð Bjarna Benediktssonar og í (Gripið fram í.) átt til hins fyrra horfs sem komið var í hreinar ógöngur. Já, það má rétt vera að hér sé um hagfræðing að ræða en ekki lögfræðing. Það er nú ekki (Forseti hringir.) allur munur þar á. Hvað segir hæstv. forsætisráðherra um þessa sögulegu skírskotun? (Forseti hringir.) Hvað skýrir þessi sinnaskipti Sjálfstæðisflokksins?