134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[17:38]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er hér á algjörum villigötum. Það er alls ekki verið að hverfa til þess horfs sem hér var áður en stjórnarráðslögin voru sett. Þvert á móti er verið að gera breytingar á lagarammanum og lögbinda aðra skipan hvað varðar heiti nokkurra ráðuneyta og sameina þarna tvö ráðuneyti. Það er ekkert verið að hverfa frá því að ráðuneytaskipanin sé lögbundin. Það var það sem var vandamálið fyrir 1969 og Bjarni Benediktsson beitti sér fyrir að leysa úr.

Það hefur síðan ætíð verið þannig, eins og hv. þingmaður veit náttúrlega, að það hefur verið hægt að flytja einstaka málaflokka og verkefni milli ráðuneyta með breytingum á reglugerðinni um Stjórnarráðið svo fremi sem almennum skilyrðum er fullnægt og málaflokkar vistaðir þar sem heiti ráðuneytis gefur til kynna að þeir eigi heima.

Þannig er þetta og það er algjörlega út í hött að gefa í skyn að hér sé verið að hverfa inn á svipaðar brautir og giltu áður en hin merku lög um Stjórnarráðið voru samþykkt 1969.