134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[17:40]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvernig skýrir hæstv. forsætisráðherra f-lið 1. gr. ef þar er ekki verið að hverfa aftur í áttina að því, að framkvæmdarvaldið hafi með því verið að leggja til við forseta t.d. að ráðuneyti verði sameinuð, að framkvæmdarvaldið sé að fá aukið olnbogarými í þessum efnum á nýjan leik? Það er augljóslega þannig.

Ég er því ekki á neinum villigötum í því þegar ég bendi á að hér er verið að boða breytingu í áttina aftur til þess að framkvæmdarvaldið geti hringlað með þetta skipulag án aðkomu Alþingis þótt það sé að vísu bara að því leytinu til að þarna er lagt til að menn geti sameinað ráðuneyti þá er það samt breyting í þessa átt.

Þannig að ég held að hæstv. forsætisráðherra verði að reyna að standa sig betur í því að útskýra (Forseti hringir.) af hverju Sjálfstæðisflokkurinn leggur nú til að horfið verði frá þessari arfleifð Bjarna Benediktssonar.