134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[17:42]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði áðan að það væri verið að búa í haginn fyrir eflingu Stjórnarráðsins. Þá vil ég spyrja: Af hverju í ósköpunum er ekki minnst á atvinnuvegaráðuneytið? Af hverju er ekki tækifærið nýtt núna? Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hafa ályktað um það á fundum sínum. Sjálfstæðisflokkurinn segir meira segja að auðvelt væri að fækka ráðuneytum töluvert, t.d. með sameiningu í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Ég spyr því: Af hverju er það ekki gert núna?

Síðan segir hæstv. forsætisráðherra að hér sé verið að gefa til kynna að það eigi að fara að fækka ráðuneytum með f-liðnum af því að forsetinn á þá að geta sameinað ráðuneyti. Hvað þýðir það? Á að sameina iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti við landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti þannig að það verði eitt atvinnuvegaráðuneyti? Er verið að boða það? Á að slá af hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson og Björgvin Sigurðsson? Hvað er verið að gefa hér í skyn? Ég spyr. (Gripið fram í.)

Eins og málið er sett upp hér er alls ekki verið að styrkja Stjórnarráðið, það er verið að veikja það með því að setja tvo ráðherra yfir lítil ráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytin. En samt er verið að gefa til kynna að það eigi að efla þau síðar.

Ég vil líka lýsa því að maður verður fyrir miklum vonbrigðum að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki komið með neinar upplýsingar um það sem felst á svokölluðum leynilista, þ.e. það sem búið er að sameinast um á milli stjórnarflokkanna, hvaða verkefni eigi að vera á milli ráðuneyta. Ég vil sérstaklega benda á að í umsögn fjármálaráðuneytisins er talað um að tilfærsla verkefna snerti samtals 41 starfsmann í stjórnsýslunni. Af hverju stendur 41 starfsmaður en ekki um 40? Þetta er mjög nákvæm tala, 41 starfsmaður.

Það hlýtur því að vera til listi með verkefnunum sem á að færa á milli en við megum ekki sjá hann. Mér finnst alveg lágmark að þingmenn fái að vita hvað er í farvatninu varðandi breytingar á reglugerðum þannig að við vitum hvaða verkefni á að flytja á milli.