134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[17:44]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki verið neitt ákveðið varðandi það með hvaða hætti f-liður 1. gr. yrði hugsanlega nýttur í framtíðinni. Auðvitað er alveg fráleitt að gera því skóna að búið sé að ákveða að leggja niður iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið eða sameina það öðrum ráðuneytum. Um það er engin ákvörðun fyrirliggjandi.

Hins vegar spyr þingmaðurinn, og það er eðlileg spurning, af hverju er ekki búið til atvinnuvegaráðuneyti með því að ganga lengra en að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti? Það má spyrja þeirrar spurningar, af hverju er ekki gengið lengra og búið til eitt risavaxið atvinnuvegaráðuneyti með iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu innan borðs? Það er vegna þess að í fyrsta lagi er það of risavaxið. Í öðru lagi er ástæðan sú að með sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytanna er í raun og veru verið að leggja drög að því að búa til það sem stundum hefur verið kallað matvælaráðuneyti. Það fer ekki saman við það að vera jafnframt allsherjaratvinnuvegaráðuneyti. Þetta er nú skýringin á þessu.

Það er ekki til neinn leynilisti, hv. þingmaður. Við höfum verið að ræða þessi mál. Margt af því hefur þegar komið fram opinberlega, hvað geti falist í öðrum breytingum en þeim sem kæmu til framkvæmda um áramót, þ.e. breytingum á reglugerðinni um Stjórnarráðið og á öðrum lögum sem þessi mál kunna að varða.

Við erum enn að vinna í því máli og við munum ekkert ljúka því fyrr en í haust vegna þess að það liggur ekki á að klára það mál. Það sem liggur á er að klára lögin um Stjórnarráðið þannig að allir viti hvaða fastaland þeir hafi undir fótum þegar kemur að verkaskiptingunni í þessum efnum.