134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:13]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður auðveldara að greiða úr þessum málum eftir að þetta frumvarp hefur hlotið afgreiðslu.

Þingmaðurinn má ekki gleyma því að hvað sem líður afdrifum þessa frumvarps þá er hægt að breyta reglugerðinni um Stjórnarráðið hvenær svo sem ríkisstjórnin ákveður. Forsætisráðherra hefur það í hendi sér og það hefur nokkrum sinnum verið gert, málaflokkar hafa verið fluttir án nokkurs atbeina Alþingis, vegna þess að það er í valdi forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar samkvæmt núgildandi stjórnarráðslögum að gera það. Það er því ekkert nýtt að slíkar breytingar geti orðið.

Ég fagna því að þingmaðurinn tekur málefnalega á þessu og ég vona að það sama verði um aðra þingmenn í hans þingflokki og á reyndar ekki von á öðru.