134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:14]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér er fullkomlega ljóst að það er hægt að breyta reglugerð um Stjórnarráðið og það er hægt að flytja til verkefni, mjög umfangsmikil verkefni á milli ráðuneyta með reglugerðarbreytingu. En ég tel samt sem áður að þegar um mjög umfangsmiklar breytingar er að ræða á skipan Stjórnarráðsins sé eðlilegt og sjálfsagt að þær séu ræddar í þinginu í samhengi við breytingar á lögum.

Nú geta menn auðvitað deilt um það eða haft misjafnar skoðanir á því hvort það sé eðlilegt að reglugerðarmál séu rædd á þingi eða í þingnefnd og mér skilst að það sé ekki hefð fyrir því að það sé gert. En þegar það er angi af svona stóru máli, hluti þess máls kemur inn í þingið í formi lagafrumvarps, hluti af því er síðan afgreiddur með reglugerð, þá er það afstaða mín að það hefði verið jákvætt að geta rætt það í heildarsamhengi í viðkomandi þingnefnd a.m.k. En menn geta haft misjafnar skoðanir á þessu.