134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[20:01]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (frh.):

Hæstv. forseti. Ég hef verið að fara í ræðu minni yfir það sem Bjarni Benediktsson, sá mikli lögspekingur og sterki stjórnmálamaður, hafði lagt til á sínum tíma. Ólíkt hafast menn að þegar tveggja manna samkomulag býr til svo óráðna niðurstöðu eins og hér er verið að kynna, og ekki að kynna, í dag. Enda sagði hæstv. forsætisráðherra ef ég man rétt fyrr í umræðunni að þess vegna væri verið að sníða Stjórnarráðið að samkomulaginu og flytja fleiri málaflokka milli ráðuneyta. Hæstv. forsætisráðherra vissi að þetta var allt saman óljóst.

Ég hef verið að fara yfir landbúnaðarráðuneytið og þær breytingar sem ég varaði við og fór málefnalega yfir sem ég bið hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórn að skoða vel án þess að vinna þar skemmdarverk. Ég mótmæli þeim orðum hæstv. forsætisráðherra sem hann viðhafði hér, að það væri of lítið að gera í landbúnaðarnefnd. Ég hygg að ef sagan verður skoðuð hafi aldrei jafnstórir kaflar í löggjöf landbúnaðarins verið endurskoðaðir og á síðustu árum. Ég hygg að Drífa Hjartardóttir, fyrrverandi formaður landbúnaðarnefndar, telji að hún hafi haft jafnmikilvægu hlutverki að gegna hér og stundum meiri verkefni en margar aðrar nefndir þingsins. Þessu vildi ég halda til haga.

Ég vil segja að það liggur í sjálfu sér ekki þannig fyrir í ljósi þess að allir flokkar vilja breytingar á Stjórnarráðinu. Auðvitað gat komið til þess að landbúnaðarráðuneytið og eitthvert ráðuneyti sameinuðust. Ég hefði kannski getað séð fyrir mér aðra mynd, landbúnaðarráðuneyti, byggðamál, samgöngumál. Landbúnaður og sjávarútvegur geta vissulega átt á margan hátt vel saman og margt í báðum ráðuneytum nýst en ég gagnrýni að það eigi að taka annað ráðuneytið, höggva góðan hluta af störfum þess ef það er rétt og stinga því svo inn í hitt ráðuneytið í hendurnar á reyndar prýðilegum ráðherra sem ég hef mætur á. En hann situr auðvitað fyrir í ráðuneyti. Ég vil vekja athygli hæstv. forsætisráðherra á því ef það er svo að virðing hans hafi minnkað fyrir íslenskum landbúnaði, sem mér finnst á öllu tali hér og framferði stjórnarflokkanna að Samfylkingin hafi þar haft mikil áhrif. Það er nú svo, hæstv. forsætisráðherra, að landbúnaður um allan heim, landbúnaðarráðuneyti um allan heim, er vísbending þjóða um mikið matvælaland. Það yrði mikið áfall fyrir Íslendinga ef landbúnaðarráðuneytið væri ekki til. Landbúnaðarráðuneyti er mjög sterkt í öllum matvælalöndum heimsins, hefur mikla þýðingu og segir mikla sögu og í rauninni miklu sterkara en sjávarútvegsráðuneyti. 90% af öllum matvælum heimsins koma frá landbúnaði og ég get tekið undir það að matvælaráðuneytið eða matvælastofnun fari til þessa sameinaða ráðuneytis. Ég held að það sé góður kostur í sjálfu sér. Ég hef verið talsmaður þess að maturinn sem kemur úr haga í maga, frá fjörð á borð eða, eins og þeir segja á Norðurlöndum, frá hafi til maga líka er mikilvægt að ábyrgðin sé með þessum hætti. Ég ætla ekkert að mótmæla því. Ég vildi samt fara yfir þetta svona.

Ég vil svo auðvitað segja hér að það er líka mikilvægt að halda vel utan um landbúnaðinn af því að hann hefur verið í mikilli þróun. Hann hefur mætt nýjum tíma og endurskipulagt sig. Hann getur búist við því sjálfsagt að alþjóðasamningar eigi sér stað. Ég ætla a.m.k. að vona að hæstv. forsætisráðherra standi gegn því fikti sem Samfylkingin hefur lagt til í tollum og öðru á síðustu árum til að skekkja þessa mynd. En hann getur staðið frammi fyrir miklum breytingum og hann hefur verið að búa sig undir það í hinni hefðbundnu landbúnaðarframleiðslu með þeim búvörusamningum sem við höfum gert fyrir utan hitt að það liggur auðvitað fyrir að landbúnaðurinn hefur í dag mörgum nýjum verkefnum að gegna í nýsköpun sveitanna sem voru ekki til fyrir 10 árum. Ég hef nefnt hestinn, skóginn, ferðaþjónustuna o.fl. Það er mjög mikilvægt að landbúnaðurinn fái að þróast áfram við þær aðstæður að löggjöfin sé heppileg og hann njóti þeirrar virðingar sem honum ber.

Svo vil ég auðvitað, hæstv. forseti, segja að mér finnst margt, hæstv. forsætisráðherra, mjög óljóst eins og ég er búinn að margfara yfir í dag. Sagan er ekki nema hálfsögð. Ég hef nefnt þar Íbúðalánasjóð. Verður hann settur inn í fjármálaráðuneytið og seldur? Þetta skapar óvissu á markaðnum og frá þessu þarf auðvitað að skýra. Ég hef beðið um umræðu við hæstv. félagsmálaráðherra um þetta stóra mál því að það er komið fram að Íslendingum þykir mikilvægt að standa vel að Íbúðalánasjóði og telja hann mikilvægan í tilveru sinni utan um eign sína þannig að það er ekki sama hvernig að þessu er farið. Þannig er með mörg fleiri verkefni sem ég hef farið yfir í fyrri ræðum og ætla þá ekki að ítreka hér en vil að lokum segja, hæstv. forseti, að mér finnst ógæfulegt að geta ekki náð samstöðu um svona mál. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvað hefur breyst í höfði hans frá því í mars? Hvers vegna leitaði hann eftir samkomulagi við stjórnarandstöðu í mars en núna í júní þarf hann enga samstöðu við stjórnarandstöðu? Ég vil fá það skýrt frá hæstv. forsætisráðherra hvaða breytingar hafa átt sér stað. Hvers vegna hafa þessi sinnaskipti hans nú orðið? Er það vegna hins stóra meiri hluta eða (Forseti hringir.) hefur samkomulag þeirra gengið út á þetta?