134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[20:07]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að hv. þingmaður þarf ekki að óttast að minn hugur gagnvart landbúnaðinum sé eitthvað öðruvísi en hann áður var. Það hefur reyndar ekkert með þetta frumvarp að gera. Þetta frumvarp er um skipulagsmál í Stjórnarráði Íslands en ekki um afstöðu mína eða annarra sem að þessu máli koma til landbúnaðar eða sjávarútvegs. Ég ber mikla virðingu fyrir landbúnaðinum og það hefur engin breyting orðið á því. Ég tel reyndar að hv. síðasti ræðumaður hafi verið afar góður landbúnaðarráðherra. Ég vil bara gjarnan koma því hér á framfæri ef einhver skyldi halda eitthvað annað.

Ég vil líka segja við hann, vegna þess að hann sagðist hafa beðið hæstv. sjávarútvegsráðherra og núverandi landbúnaðarráðherra um það og beindi því einnig til mín að menn mundu vanda sig í framhaldinu, sérstaklega varðandi landbúnaðarskólana en einnig landgræðslu og skógrækt, að auðvitað verður það gert. Ég vil bara fullvissa hv. þingmann um það. Það stendur ekki annað til, þess vegna m.a. ætlum við okkur tímann til áramóta til að ganga frá öllu þessu máli.

Lagabreytingin hérna er einföld og felur ekkert annað í sér en það sem hér segir. Ef menn ætla að færa landbúnaðarskólana eins og er ásetningur okkar er vel hægt að gera það án þess að breyta stjórnarráðslögunum. Það er hægt að gera það með breytingu á lögunum um búnaðarfræðslu. Það er ekki þetta mál hér. Sama er að segja um margt annað sem hv. þingmaður var að spyrja um. Það má ekki flækja þetta mál um of.

Ég freistaði þess í marsmánuði að ná samkomulagi allra flokka um að gera þá breytingu á stjórnarráðslögunum sem er að finna í f-lið 1. gr., að það mætti sameina ráðuneytin með úrskurði forseta. Ég taldi að allir stjórnmálaflokkar kynnu að óska þess eftir kosningar að hafa þann möguleika. Um það náðist ekki samkomulag. Nú er (Forseti hringir.) þetta mál komið í þennan búning sem allir þekkja.