134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[21:00]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er erfitt að draga aðrar ályktanir af svarinu en að hæstv. ráðherra telji þessi vinnubrögð eðlileg og taki fulla ábyrgð á þeim. Þetta eru samræðustjórnmálin eins og þau eru tíðkuð nú til dags, samráðs- og sáttarviljinn sem við mætum af hálfu þessarar ríkisstjórnar, að beitt er fáheyrðu ofbeldi í þinglegu starfi og þinglegri umfjöllun um mál af því tagi sem virðist hafa átt sér stað í allsherjarnefnd í kvöld.

Ef þessi mál eru svona léttvæg og smá í sniðum og gagnrýni okkar og athugasemdir allar á svo miklum misskilningi byggðar, að þetta sé eiginlega ekki neitt neitt — af hverju þá þessi læti? Af hverju er þá verið að troða þessu í gegn? Hvaða máli skiptir það fyrir hæstv. ríkisstjórn að fá þetta í gegn úr því að það á hvort eð er efnislega ekki að taka gildi fyrr en um áramót? Hvers vegna í ósköpunum á að troða þessu ofan í kokið á Alþingi eins og nú er verið að gera? Það getur varla verið neitt annað en að hæstv. ríkisstjórn telji sig þurfa táknræna staðfestingu þess að hún ætli að gera það sem hún ætlar sér að gera og að það megi ekki vinna þessa reglugerð um Stjórnarráðið og sortera málaflokkana í sundur óháð þessu, að sjálfsögðu, enda áttu þessi mál þá að bíða og koma þegar pakkinn væri tilbúinn.

Síðasta málið sem hér átti að fá afgreiðslu voru þingskapalögin, að sjálfsögðu, þegar Alþingi sæi fyrir sér breytingarnar í heild sinni. Þá er eðlilegt að Alþingi, ekki ríkisstjórnin takist á við það að laga skipulag sitt og starfsreglur þingsins að þeim nýja veruleika. Sjálfsagt hefði það farið í grófum dráttum saman við þær breytingar sem orðið hefðu á ráðuneytaskipan en það er þó ekki algerlega sjálfgefið að það verði. Þar ætti Alþingi sjálft að hafa tíma og aðstöðu til að meta málin og ráða sínum leikreglum sjálft. Þar eiga þær að vera undirbúnar, frumkvæðisskyldan er hér.

Það er alveg sama hvernig að þessu máli er komið. Það er dapurleg (Forseti hringir.) sönnun þess að ríkisstjórnin lítur á Alþingi sem afgreiðslustofnun fyrir sjálfa sig.