134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

vandi sjávarbyggðanna.

[13:34]
Hlusta

Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir (Vg):

Herra forseti. Undanfarið hafa borist válegar fregnir af vanda sjávarþorpanna víða um landið, sjávarþorpa sem berjast fyrir tilvist sinni þar sem verið er að selja allan kvóta í burtu og loka landvinnslunni vegna erfiðra rekstrarskilyrða sjávarútvegsfyrirtækja. Annars staðar hangir óvissan tengd sviptingum í eignarhaldi fyrirtækja og þar með hvað verði um kvótann yfir mönnunum.

Erfiðleikar margra sem nú eru að komast í þrot í sjávarútveginum tengjast ekki síst svimandi háu verði á kvóta fyrir þá sem þurfa að leigja eða kaupa til sín aflaheimildir. Hátt gengi krónunnar, háir vextir og mikill flutningskostnaður er einnig sjávarútveginum almennt mjög íþyngjandi. Nú síðast er boðaður samdráttur í þorskveiðum niður í aðeins 130 þús. tonn á næsta ári ef farið verður að tillögum Hafrannsóknastofnunar og horfur um viðkomu stofnsins eru dökkar til næstu ára litið.

Ekki er ofsagt að þetta eru einhverjar alvarlegustu horfur sem blasað hafa við málefnum sjávarútvegsins og sjávarbyggðanna, og þar með auðvitað fyrir þjóðarbúið allt, í áratugi. Þegar kemur að lokun fyrirtækja, sölu báta og aflaheimilda í burtu og fiskvinnslan leggst af standa eftir íbúar sjávarþorpanna sem hafa haft alla sína afkomu af vinnu við sjávarútveg, landverkafólk og sjómenn. Nýjustu dæmin eru þau að 33 einstaklingar unnu sinn síðasta vinnudag í fiskvinnslunni Bakkavík í Bolungarvík á fimmtudaginn var og á Flateyri hefur 120 einstaklingum verið sagt upp vinnu, og bæði skip og aflaheimildir selt í burtu af staðnum. Athugið að hér er um að ræða 120 manns af rúmlega 300 íbúum sem hafa átt allt undir því að útgerð blómstraði og dafnaði, sem sagt rúmlega 40% íbúa. Hér er í rauninni atvinnuréttur heillar byggðar seldur í burtu.

Einnig er hægt að taka dæmi af ástandinu í Vestmannaeyjum þar sem heimamenn eiga í hörðum átökum um að halda forræði í Vinnslustöðinni og þar með aflaheimildum, eða kvóta, í heimabyggð. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að það er ekki auðveld ákvörðun fyrir atvinnurekendur sem við þessar erfiðu rekstraraðstæður neyðast til að hætta rekstri og segja upp fólki og horfa á það ástand sem af því skapast í heimabyggð sinni. Framtíð atvinnulífs og búsetu á Vestfjörðum sem og á öllum þeim stöðum öðrum sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi, ekki síst í minni sjávarbyggðum sem fyrst og fremst byggja á þorskveiðum, hangir á bláþræði. Sverðin hanga yfir sjávarbyggðunum í orðsins fyllstu merkingu og enginn virðist vita hvar þau falla eða hverjir verða fyrir þeim næst. Í lögum um fiskveiðistjórn segir, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“

Getum við sagt að traust atvinna sé tryggð með þessu kerfi eins og það er í dag? Nei, því miður. Horfumst í augu við staðreyndirnar. Það sýna best nýjustu dæmin sem hér hafa verið rakin. Vandi byggðanna er ekki síst samfélagslegur við svona áföll. Til viðbótar því að einstaklingarnir missa atvinnu minnka tekjur sveitarfélaganna og æ erfiðara verður að halda uppi lögboðinni þjónustu, svo sem leik- og grunnskólum, hvað þá að sveitarfélögin hafi bolmagn til að bregðast við áföllum með því að leggja fjármuni í nýja möguleika og tækifæri í atvinnumálum eða standa að baki þeirra sem eftir eru.

Við þingmenn Vinstri grænna heimsóttum íbúa Flateyrar, Bolungarvíkur og Ísafjarðar á föstudaginn var og er skemmst frá því að segja að mikill kvíði og óvissa ríkir hjá þeim. Það einkennir andrúmsloftið þar eins og örugglega víða á landsbyggðinni þessa dagana. Verst þótti íbúum tómlæti stjórnvalda í sinn garð og það ótrúlega áhugaleysi sem ný ríkisstjórn hefur sýnt málinu. Einn viðmælenda okkar orðaði það einfaldlega svo: Þau eru fljót að gleyma okkur þegar búið er að kjósa.

Íbúarnir eru þó ekki á því að gefast upp og vilja leita allra leiða til að geta búið áfram á Vestfjörðum. Þeir vilja enga ölmusu. Þeir gera aðeins kröfu um að þeim séu búin sömu skilyrði til búsetu og tækifæra og öðrum landsmönnum, t.d. er varðar samgöngur, flutningskostnað, orkuverð og lánamöguleika. Undir þessi sjónarmið tek ég og við vinstri græn, það verður að leita allra leiða til að jafna samkeppnisaðstöðu sjávarþorpanna og landsbyggðarinnar almennt. Til þess erum við m.a. kosin, hv. þingmenn þessa lands, til að tryggja öllum landsmönnum jöfn tækifæri og góð lífsskilyrði án tillits til þess hvar þeir búa. Fólk kallar nú eftir aðgerðum strax. Óvissa og bið er skaðleg og fer illa með alla, ekki síst samfélögin sem í hlut eiga. Spurningar mínar eru því þessar:

Til hvaða bráðabirgðaúrræða hyggjast hæstv. ráðherra og ríkisstjórn grípa til að mæta þessum vanda byggðanna? Hvenær geta stjórnvöld gefið íbúum Flateyrar, Bolungarvíkur, Djúpavogs, Bakkafjarðar o.s.frv. (Forseti hringir.) svör um framtíð, atvinnu og búsetu þeirra á svæðinu? Kemur til greina að úthluta og byggðatengja veiðiheimildir (Forseti hringir.) í auknum mæli og þá sérstaklega við minni sjávarbyggðir? Verða þau sveitarfélög sem orðið hafa fyrir sérstökum áföllum (Forseti hringir.) vegna uppsagna og áfalla í sjávarútvegi af öðrum sambærilegum ástæðum aðstoðuð sérstaklega svo þau þurfi ekki að bæta gráu ofan á svart með niðurskurði þjónustu?

Það þarf úrræði strax, það dugar ekki lengur að sitja á höndum sér í þessum málum. Það þarf úrræði til að endurvekja bjartsýni og trú á framtíðina í sjávarbyggðunum.