134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

vandi sjávarbyggðanna.

[13:40]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir það að hefja máls á þessu máli sem að mínu mati er mjög brýnt og skiptir okkur miklu máli að við tökum á. Það fer ekkert á milli mála að vandinn er víða mikill. Sumt af þessu snýr að fiskveiðistjórninni sjálfri, annað snýr auðvitað að öðrum þáttum eins og hv. þingmaður nefndi og mætti hafa um það í sjálfu sér langt mál. Það er þannig varðandi fiskveiðistjórn okkar að við höfum haft auga á henni jafnframt því að gera fiskveiðistjórnina þannig úr garði að við höfum reynt að setja inn í fiskveiðistjórnarkerfið ýmsa byggðatengda þætti.

Það var tekin um það á sínum tíma pólitísk ákvörðun í miklum ágreiningi á þeim tíma að auka hlut smábáta í veiðiheimildunum og það hefur auðvitað skilað sér til margra byggðarlaga, bæði á Vestfjörðum, Norðurlandi, Austfjörðum og víðar um landið. Það er ekki ástæða til að gera lítið úr því að þegar þessi pólitíska ákvörðun var tekin var hún tekin fyrst og fremst til þess að reyna að styrkja stoðir minni byggðarlaganna. Þegar við horfum á þetta blasir auðvitað við að sjávarútvegurinn er meginatvinnuvegurinn í sjávarbyggðunum vítt um landið og þar eru aflaheimildirnar. Aflaheimildirnar eru fyrst og fremst á landsbyggðinni og þær breytingar sem hafa orðið á aflaheimildum hafa fyrst og fremst verið breytingar innan landsbyggðarinnar frá einum stað til annars. Þegar við tókum þá pólitísku ákvörðun að færa aflaheimildir til minni bátanna var það gert fyrst og fremst með hliðsjón af því að reyna að styrkja stoðir þessara minni byggðarlaga og þegar við horfum t.d. á dreifingu krókaaflamarksins yfir landið blasir við að það hefur skilað árangri.

Inn í fiskveiðistjórnarkerfið eru síðan byggðir ýmsir aðrir byggðatengdir þættir. Við erum með byggðakvóta, aflabætur vegna rækju- og skelfiskbrests og línuívilnun. Þetta eru um 18 þús. tonn. Ég er ekki að segja að þetta séu miklar aflaheimildir en 18 þús. tonn telja samt og skipta máli. Ég er alveg sammála því sem hv. þingmaður sagði áðan, vitaskuld á að reyna að tryggja það að þær aflaheimildir sem við notum í þessum tilgangi fari fyrst og fremst til hinna minni byggðarlaga sem hafa færri úrræði en hin stærri.

Ég er núna í undirbúningsvinnu að nýrri byggðakvótaúthlutun fyrir næsta fiskveiðiár og stefni að því að fyrst og fremst verði reynt að horfa til þessara byggðarlaga. Ef við skoðum t.d. þróunina frá árinu 1999 hafa yfir 40 sveitarfélög fengið byggðakvóta á þessum tíma. Það er alveg ljóst mál að þetta er ekki nægilega markvisst og byggðarlögin innan sveitarfélaganna eru fleiri. Sú ákvörðun ein og sér að reyna að færa stærri hluta af þessum byggðatengdu kvótum, byggðakvótum og öðrum aflabótum, til hinna minni byggðarlaga mun skipta miklu máli.

Ég tel enn fremur ástæðu til að fara yfir það enn á ný hvort hægt sé að styrkja forkaupsréttarákvæði sveitarfélaganna til að bregðast við aðstæðum sem upp hafa komið þar sem kvóti hefur verið seldur og gefa mönnum tækifæri til þess með einhverjum hætti að koma inn í þessi kaup.

Ég vil líka segja að fyrir sjávarútvegsráðherra liggja tillögur frá útvegsmönnum og sjómannasamtökunum varðandi veiðiskylduna. Ég hefði talið að vegna ýmissa annarra annmarka á því hefði ekki verið ástæða til að auka þessa veiðiskyldu. Ég tek hins vegar eftir því að í hinni pólitísku umræðu er mikil krafa um að draga úr leiguframsalinu og auka veiðiskylduna og ég tel þess vegna mjög nauðsynlegt að fara yfir þessi mál. Á því eru hins vegar margir vankantar. Það mun koma illa við t.d. minni útgerðir með minni aflaheimildir o.s.frv. og þess vegna hef ég t.d. staðið á bremsunni varðandi þetta. Það er hins vegar nauðsynlegt vegna hinnar pólitísku umræðu að fara yfir þessi mál að nýju samfara því að skoða líka með hvaða hætti er hægt að koma í veg fyrir það sem menn hafa verið að gera með aðferðum við það að fara fram hjá reglunum um 50% veiðiskyldu.

Virðulegi forseti. Við gerum okkur grein fyrir því að hluti af þeim vanda sem við er að glíma í sjávarbyggðunum á ekki eingöngu rætur sínar að rekja til þessa vanda sem uppi er í sjávarútveginum. Það eru ýmsar aðrar ástæður sem eru líka samverkandi þættir í þessum efnum og í því sambandi nefndi hv. þingmaður ýmsa hluti sem ég get alveg tekið undir með henni. Eitt af því sem við þurfum þá enn fremur að gera á næstunni, jafnframt því sem ég er að leggja fram og vekja athygli á að verið er að vinna núna undir minni forustu í sjávarútvegsráðuneytinu, er að koma til móts við áhyggjur sem við öll höfum vegna stöðunnar sem þarna er uppi. Í því sambandi þarf bæði að horfa á samgönguþætti, ýmsa hluti sem snúa að innviðunum og uppbyggingu nýrra atvinnuvega. Þróunin hefur verið sú að vegna tæknibreytinga og ýmissa annarra þátta hefur starfsfólki í sjávarútvegi fækkað og til þess að sjávarbyggðirnar, eins og aðrar byggðir í landinu, eigi möguleika á þeirri nauðsynlegu viðspyrnu sem þarf að vera til staðar þarf okkur að takast að byggja upp aðrar atvinnugreinar samhliða sjávarútveginum. En sjávarútvegurinn verður hins vegar um ókomin ár meginundirstaða þessara byggða og þess vegna þarf að hyggja að þeim þáttum sem snúa að fiskveiðistjórnarmálunum. (Forseti hringir.) Jafnframt því að hafa öflugan kraftmikinn sjávarútveg þurfum við að tryggja það að hin byggðalegu úrræði séu til staðar og þeim sé þá markvisst beitt. Það er það sem við höfum unnið að og sú ákvörðun Alþingis á síðasta vori varðandi byggðakvótann lagði grundvöll að því.