134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

vandi sjávarbyggðanna.

[13:52]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Óskaplega voru þau fátækleg og rýr í roðinu, svör hæstvirtra ráðherra hér áðan. Tómlæti er einmitt orðið og dauðyflisleg viðbrögð á allan hátt, að setja tvo ráðherra á vakt, á útkikk hér syðra, og þó að 20 opinber störf sem verði auglýst á næstunni með mögulega staðsetningu á Vestfjörðum séu að sjálfsögðu góðra gjalda verð draga þau skammt upp í 200 eða á þriðja hundrað starfa sem uppsagnir hafa á örfáum vikum kallað á á norðanverðum Vestfjörðum. Ef við leggjum saman Kamb, Bakkavík, Marel, Ratsjárstofnun og fleiri aðila sem sagt hafa upp fólki að undanförnu, bara á þessu svæði, er þar um að ræða hundruð starfa en ekki tugi.

Það þolir ekki bið að taka á þessum málum. (GMJ: … fiskveiðistjórnarkerfið.) — Vertu rólegur, ég er með orðið, hv. þingmaður. — Fólkið bíður ekki haustsins í fullkominni óvissu um það hvort það hafi atvinnu eða geti bjargað sér í afskekktum sjávarbyggðum. Það flytur og gjarnan áður en nýtt skólaár fer í hönd. Afurðaverð fer nú lækkandi í sjávarútveginum og að óbreyttri hagstjórn, að óbreyttu gengi, vöxtum og verðbólgu, er ekkert annað en vaxandi þrengingar fram undan í sjávarútveginum og sérstaklega þeim greinum hans og þeim byggðarlögum sem einkum eru háð þorski. Þar er vá fyrir dyrum og hún kemur að sjálfsögðu inn á fiskveiðistjórnarkerfið og fleiri hluti.

Þetta snýst ekki síst um andrúmsloft, um tiltrú. Hæstv. ríkisstjórn verður að átta sig á því að hún hefur aðeins takmarkaðan tíma til að senda einhver þau skilaboð út í samfélagið sem mark verður tekið á. Það dugar nefnilega ekki, eins og málshefjandi orðaði það, að sitja á höndunum á sér suður í Reykjavík, vera þar á útkikki og ætla að fylgjast með því hvað gerist á Flateyri. Það þarf að senda skilaboð um að það eigi að taka á þessum málum, og það fyrr en seinna.