134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

vandi sjávarbyggðanna.

[13:57]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Það málefni sem við ræðum um í dag er kannski eitt það brýnasta og alvarlegasta sem íslenskt þjóðfélag stendur frammi fyrir, þ.e. sú hraða þróun sem hér er í átt til lítils borgríkis, og vandi sjávarbyggðanna spilar mikla rullu. Það er samt ekki svo auðvelt að vera í stjórnarandstöðu að hægt sé, líkt og sumir hv. þingmenn í stjórnarandstöðu hafa gert, að leggja til að ekki verði farið að tillögu Hafrannsóknastofnunar. Við höfum ekki val um neitt annað, við höfum ekki við neitt betra að styðjast. Það kunna að vera gloppur í þessum tillögum, það kunna að vera gloppur í þessum vísindum en við verðum að fara eftir þeim.

Ég held að það sé löngu tímabært að við horfum á það að vandi landsbyggðarinnar verður ekki leystur með stýringu á sjávarútveginum. Vandi landsbyggðarinnar verður ekki leystur með þessum atvinnuvegi frumframleiðslunnar sem auðvitað mun spila minni og minni rullu í hagkerfi okkar eftir því sem ár og áratugir líða.

Ég fagna því að hæstv. byggðamálaráðherra — (Gripið fram í.) hæstv. iðnaðarráðherra hefur áhuga á málinu og ætlar að láta það til sín taka. Ég skora á hann að horfa á byggðamálin út frá nýjum forsendum, út frá þeim forsendum að þetta sé ekki eingöngu málefni sjávarútvegsins og við þurfum á því að halda að horfa til nýrra leiða. Ég tel að það séu til leiðir líkt og þær sem farnar hafa verið í Skandinavíu sem séu miklu líklegri til árangurs en sá fyrirtækjasósíalismi sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson talaði fyrir rétt áðan, að við þurfum að stofna fyrirtæki sem síðan fái svo og svo mikið fé. (Forseti hringir.) Við þurfum að horfa til þess að bæta búsetuskilyrðin, m.a. með breytingum í skattkerfi.