134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

vandi sjávarbyggðanna.

[14:01]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þessi umræða er mjög þörf en við skulum ekki gleyma því að hún er búin að vera mjög þörf í 8 eða 10 ár, a.m.k. frá því að menn fóru almennt að átta sig á þeim erfiðleikum sem fylgdu framseljanlegu kvótakerfi. Það kveiktu ekki allir á því árið 1990 hvaða afleiðingar það mundi hafa en ég vænti þess að í dag sjái hv. þingmenn hvaða afleiðingar það hefur og séu þar af leiðandi tilbúnir til að takast á við það sem við stöndum frammi fyrir, þ.e. þann innbyggða vanda að byggðirnar hafa ekkert öryggi í núverandi fiskveiðikerfi. Það er búið að liggja fyrir lengi.

Þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra valdi þá leið að styðja m.a. að ýsa, ufsi og steinbítur yrðu kvótasett í smábátakerfinu, sem var svona frelsisvottur og gerði það að verkum að menn gátu komist inn í það kerfi, var alveg vitað hvað hæfist. Það mundi hefjast verslun í þessu kerfi. Það gekk eftir. Þegar verslunin fer niður í allar veiðigreinarnar og engin veiðigrein er eftir til þess að verja byggðina og byggðaréttinn er byggðunum enn hættara en áður var.

Þess vegna voru það mikil mistök, hæstv. forseti, að fara þá leið á sínum tíma. Þar áttu dugandi menn innkomu sem þeir eiga ekki í dag undir því sölu- og okurkerfi kvótans sem er við lýði, hvort sem er í varanlegri sölu eða ekki.

Menn eru á vaktinni í ríkisstjórnarflokkunum varðandi byggðirnar. Ég vænti þess að sú vakt verði staðin af sömu árvekni (Forseti hringir.) og togarasjómenn stóðu sína vakt þegar vökulögin voru sett á sínum tíma.