134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

afgreiðsla mála í allsherjarnefnd.

[14:08]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs í framhaldi af því sem gerðist hér í gærkvöldi þegar þingmál um þingsköp Alþingis var tekið út úr allsherjarnefnd eftir klukkutímaumræðu í nefndinni.

Hæstv. forseti. Þessi meiri hluti fer ekki vel af stað. Strax á þingsetningardeginum keyrði hann málin af stað með þeim hætti að það var farið á svig við þingskapalögin þegar hér var sleppt að kjósa í þrjár þingnefndir.

Hæstv. forseti þarf að svara okkur því hvort þetta séu ásættanleg vinnubrögð að hans mati, hvort þetta sé sá svipur og það yfirbragð sem hann vill hafa á löggjafarsamkomu þjóðarinnar undir sinni stjórn. Ef marka má orð hæstv. forseta á þingsetningardegi dreg ég þá ályktun að svo sé ekki. Hæstv. forseti er forseti þingsins alls, allra þingflokka sem eiga hér kjörna fulltrúa.

Ég skora á hæstv. forseta að fresta umræðum um þetta fyrsta mál á dagskrá, um þingsköp Alþingis, þannig að allsherjarnefnd gefist ráðrúm til að fjalla um það, ásamt með breytingunum á Stjórnarráðinu, vegna þess að eins og leitt var í ljós í umræðum í gær tengjast þessi mál afar þétt saman og þurfa að haldast í hendur í nefndinni.

Mér finnst það fullkominn flumbrugangur og offors að leyfa sér það eftir einn fund í allsherjarnefnd, sem stóð í klukkutíma, að taka út hið umdeilda þingskapamál þegar okkur er í lófa lagið að kjósa í þær þingnefndir sem um ræðir og hefur verið frá þingsetningardegi.

Ég skora á hæstv. forseta að skoða þessi mál, hvort ekki megi sleppa hér fyrsta dagskrármálinu, fresta því þangað til stjórnarráðsmálið er komið út úr nefndinni, einhvern tímann síðar í þessari viku eða þegar líður á þá næstu. Stjórnarandstaðan bauð fram samvinnu og krafta sína í þeim málum sem rætt var um áðan varðandi vanda sjávarbyggðanna. Stjórnarandstaðan er og hefur verið fús til samvinnu við þennan stóra meiri hluta um afgreiðslu þessara mála hér. Hún er það enn. Það er mjög miður ef hæstv. forseti ætlar að láta þennan sterka meiri hluta fara sínu fram á þessum nótum sem hann hefur gert þá fáu daga sem liðnir eru af sumarþinginu.