134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

afgreiðsla mála í allsherjarnefnd.

[14:10]
Hlusta

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Vegna orða hv. þingmanns vill forseti geta þess að hann hefur tekið ákvörðun um það, svo framarlega sem nokkur tök eru á hér í dag, að ljúka afgreiðslu á frumvarpinu um þingsköp Alþingis. Hvers vegna er það? Við erum að koma hér út úr utandagskrárumræðu, umræðu um sjávarútvegsmál, þar sem eru mjög strangar og stífar kröfur um að allt sé gert sem hægt er til að tryggja hagsmuni sjávarbyggða. Með sama hætti var mjög skýr krafa um að forseti tryggði að kosið yrði í nefndir þingsins. Þær nefndir þingsins sem gert er ráð fyrir að kjósa með samþykkt þessa frumvarps eiga m.a. að fjalla um alvarleg mál eins og þessi sjávarútvegsmál. Þess vegna tel ég engin efni og engar ástæður til að draga þessa umræðu. Það liggja fyrir nefndarálit frá allsherjarnefnd og í því ljósi liggur málið algjörlega ljóst fyrir af hálfu forseta og engin ástæða til að fresta afgreiðslu þessa máls.