134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

afgreiðsla mála í allsherjarnefnd.

[14:15]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Vegna ummæla sem hér hafa fallið um meint ofbeldi meiri hluta allsherjarnefndar í þessu máli vildi ég að fram kæmi að málið var tekið fyrir eins og gerð hefur verið grein fyrir á fundi nefndarinnar í gærkvöldi. Frumvarpið sjálft er afar einfalt í sniðum og felur ekki í sér flóknar breytingar. Það lá því mjög ljóst fyrir hvaða áhrif það hefði og um það þurfti ekki að hafa langt mál. Það var mat meiri hlutans að ástæðulaust væri að eyða löngum tíma í það.

Nú liggur hins vegar fyrir að þær athugasemdir sem komu fram, bæði við umræður í gær og eins innan allsherjarnefndar, við fyrirhugaðar breytingar á stjórnarráðslögunum voru ekki til umfjöllunar þegar þetta mál, þingskapalögin, var til umræðu þannig að það var okkar mat að það væri eðlilegra að sú umræða sem menn vildu taka um breytingu á fyrirkomulagi Stjórnarráðsins ætti sér stað undir þeim dagskrárlið en ekki þessum.

Spurt er: Af hverju eru þessi tvö mál ekki látin hanga saman? Það liggur ljóst fyrir að bæði byggja á stefnumörkun ríkisstjórnarflokkanna í þessum efnum. Fyrir því hafa verið færð þau rök og það eru sjónarmið sem meiri hluti allsherjarnefndar studdi að mikilvægt væri að klára þingskapahlutann eins fljótt og auðið yrði til þess að unnt yrði að kjósa til fastanefnda samkvæmt nýju fyrirkomulagi. Vissulega er rétt sem fram hefur komið að það hefði verið hægt að kjósa samkvæmt gamla fyrirkomulaginu og kjósa síðan upp á nýtt í nýjar nefndir samkvæmt nýju fyrirkomulagi þegar sú breyting hefði átt sér stað. Í því hefði hins vegar verið fólginn tvíverknaður og hefði að mínu mati verið fullkomlega ástæðulaust í ljósi þess að fyrir liggur að ríkisstjórnarflokkarnir hyggjast ná fram þessum meginbreytingum og til þess að stuðla að því að fastanefndir geti tekið til starfa samkvæmt því fyrirkomulagi sem ætlað er að standa til frambúðar þá var að sjálfsögðu eðlilegra að bíða í örfáa daga með kjörið og klára þingskapahlutann áður en lengra væri haldið. Það var því mat meiri hluta allsherjarnefndar í þessu máli að ástæðulaust væri að bíða með þetta. Athugasemdir sem varða stjórnarráðslögin eiga frekar heima undir þeim lið í umræðunni og það mál er nú til meðferðar í allsherjarnefnd og verður rætt frekar á morgun. Það væri í sjálfu sér fullkominn óþarfi að bíða með þetta og tefja þar með að kjósa til nefndanna samkvæmt nýju fyrirkomulagi (Forseti hringir.) og bíða eftir hinu málinu þannig að meiri hluti allsherjarnefndar er fullkomlega sáttur við þessi vinnubrögð og telur að málflutningur stjórnarandstöðunnar í þessu sé ys og þys út af engu.