134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

afgreiðsla mála í allsherjarnefnd.

[14:25]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Stjórnarandstöðunni er að sjálfsögðu í sjálfsvald sett hvaða mál hún tekur og ræðir til þrautar á hinu háa Alþingi og hún velur það en mér hefur þótt mjög athyglisvert í umræðu um þetta tiltekna mál að stjórnarandstaðan hefur gert mjög ríka kröfu til þess að annað mál verði afgreitt samhliða. Hér er um að ræða lög er lúta að skipulagi löggjafarvaldsins og lagt er til að ljúka því máli sérstaklega, þ.e. að löggjafarvaldið ákveði hvert skuli vera skipulagið á þinginu. Hvers vegna er sett fram krafa um að það verði gert samhliða og skipulag framkvæmdarvaldsins er afgreitt um leið og því er haldið fram að þingið sé afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið? Hér er einfaldlega um það að ræða að löggjafarvaldið ákveði sjálft sitt skipulag. Síðan ákveðum við síðar hvernig skipulagið kann að vera hjá framkvæmdarvaldinu. Hér er um það að ræða að Alþingi ákveði sitt skipulag sjálft. Þess vegna furða ég mig mjög á því hvernig þetta mál er sett fram.

Ég hef ákveðna samúð með sjónarmiðum sem hv. þm. Jón Magnússon setur fram í nefndaráliti sínu. Þar segir hann einfaldlega að það sé mikilvægt að það verði kosið í þessar nefndir og það gert strax. Um það snýst þetta mál núna. Enda hefur forseti sagt að um leið og þessu máli verði lokið, þ.e. þessari umræðu, þá verði kosið í nefndir. Hvort það gerist í dag eða morgun hefur stjórnarandstaðan án efa mikið um að segja. Kjarni málsins er náttúrlega sá að það er eðlilegt að löggjafinn ákveði sitt skipulag sjálfstætt og án tengsla við framkvæmdarvaldið, þrátt fyrir að venjan sé sú að nefndaskipan á þinginu hafi tekið mið og hliðsjón af ráðuneytaskipan. Það hefur alltaf verið, það er ekkert nýtt í þeim efnum. En það er sjálfsagt og eðlilegt að þingið afgreiði sitt mál sjálfstætt og síðan verði afgreitt hvernig skipulagið verði hjá framkvæmdarvaldinu. Það er eðlilegt að greina þarna á milli og óeðlilegt að gera þá skýlausu kröfu að þetta sé afgreitt saman því að þarna er um sitt hvort valdsviðið að ræða, þ.e. framkvæmdarvaldið annars vegar og löggjafarvaldið hins vegar.