134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

afgreiðsla mála í allsherjarnefnd.

[14:31]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Nú er þetta sem sagt allt orðið okkur að kenna. Það erum við sem erum sökudólgarnir. Það erum við sem komum í veg fyrir að hér sé kosið í þingnefndir, segir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Hann segir að þessi vinnubrögð séu fullkomlega eðlileg, ekkert við þau að athuga. Með öðrum orðum, hið afbrigðilega er orðið eðlilegt. Það að beita afbrigðum er orðinn hinn eðlilegi framgangsmáti hér á þingi að mati hv. þingmanns. Það er eðlilegt að taka mál inn í nefnd og rífa þau út aftur á einum og sama fundinum. Það er eðlilegt að meiri hlutinn hunsi þau mörk sem eiga að vera á milli umræðna, sem eiga að tryggja vandaða málsmeðferð og tryggja að mál rúlli ekki í gegn á færibandi nema gott samkomulag sé um annað. Til þess eru varnaglarnir sem slegnir eru í þingsköpunum hugsaðir. Þetta vita allir.

Sú var tíðin að hér störfuðu tvær þingdeildir og frumvarp af þessu tagi hefði þurft að fara í gegnum sex umræður og ganga aftur til fyrri deildar ef því hefði verið breytt í hinni síðari. Þegar Alþingi var sameinað í eina málstofu sóru menn og sárt við lögðu að menn mundu fara sérstaklega varlega í að stytta leiðirnar fyrir frumvörp og þingmál í gegn eftir að þingið væri komið í eina málstofu. Ég er hræddur um að menn hefðu eitthvað sagt á þeim dögum ef þeir hefðu séð fyrir sér að það kæmi einhvern tíma svo gæfulaus meiri hluti að hann færi með vald sitt eins og sá sem hér ræður nú ríkjum.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson reynir núna að snúa þessu þannig að þetta sé að frumkvæði Alþingis. Að Alþingi sé hér sjálft á undan með breytingar á þingskapalögunum og svo komi spurningin um hitt. Er þetta nú ekki að snúa hlutunum svolítið á haus? Lá frumkvæðisskyldan í þessu máli einhvern tímann hjá Alþingi? Hverjir flytja frumvarpið? Eru það formenn allra þingflokka eins og hefðin er? Nei, það eru verkamenn ríkisstjórnarinnar sem hafa sett sig á það, formenn þingflokka stjórnarliðsins.

Þetta dæmir sig sjálft, virðulegi forseti. Það að til vansa hefði verið að kjósa hér í þingnefndir samkvæmt gildandi lögum fæ ég ekki séð að geti staðist. Er einhvern tímann eitthvað að því að Alþingi fari að lögum, ég tala nú ekki um þeim lögum sem um það sjálft gilda? Það held ég varla. Í okkar hugum var að þá mundu þær nefndir starfa fram að næstu áramótum, enda liggur fyrir að ekkert af þessu á að taka gildi fyrr en um áramót, nema sýndarmennskan, nema nafngiftirnar. Það er hið táknræna sem ríkisstjórnin þarf, sjálfrar sín vegna, á að halda núna. Að öðru leyti eiga lögin ekki að taka gildi fyrr en um áramót, að öðru leyti á ný reglugerð um Stjórnarráðið ekki að taka gildi fyrr en um áramót. Enda á ríkisstjórnin, að því er best virðist, að verulegu leyti eftir að koma sér saman um innihald pakkans og allt á huldu um það hvað raunverulega kemur út úr þessu að lokum.

Þess vegna var það ósk okkar og krafa að um þessi mál yrði fjallað saman og í heild sinni í von um að niðurstaðan yrði sú að þetta mundi allt saman bíða haustsins og færi þá (Forseti hringir.) með eðlilegum hætti í gegnum þingið.