134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

afgreiðsla mála í allsherjarnefnd.

[14:35]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að allur minni hlutinn í þinginu er mjög ósáttur við þessi vinnubrögð. Það kemur skýrt fram, virðulegi forseti, í nefndarálitunum, þ.e. í þeim báðum, frá 1. og 2. minni hluta. Frjálslyndir eru mjög ósáttir við þessi vinnubrögð og þeir draga það fram, virðulegi forseti, að það átti að fara eftir gildandi lögum um þingsköp, það átti að kjósa í nefndirnar strax en það var ekki gert. Þetta var óeðlilegt, segja Frjálslyndir, eins og við hin segjum líka. (Gripið fram í: Eftir nefndarálitið?) Og menn neyttu aflsmunar.

Þeir segja hins vegar að þetta sé staðreynd, að staðan sem nú ríki sé staðreynd. Það er alveg rétt hjá þeim en við látum þetta ekki yfir okkur ganga þegjandi og hljóðalaust, þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð, virðulegi forseti. Það hefði verið hægt að kjósa strax í hefðbundnar nefndir. Það hefði alls ekki verið til vansa, það hefði verið eins og þingsköpin kváðu á um en það var ekki gert.

Það er rétt að þetta er ekki stærsta málið sem mun reka á fjörur þessa þings en það er mjög stórt mál hvernig vinnubrögðin eru á hinu háa Alþingi. Það er mjög stórt mál, það er jafnvel enn þá stærra núna þegar meiri hlutinn er svona sterkur og getur farið fram með hvað sem hann vill með afbrigðum, þá verður svona mál að mjög stóru máli. Við viljum ekki sjá þessi vinnubrögð í framtíðinni.

Vinnubrögðin hafa verið þannig gagnvart þingsköpum að menn hafa leitað eftir samstöðu allra þingflokka. Það hefur verið hefðin. Sú hefð er brotin núna. Þetta er ekki unnið í neinu samstarfi og þessi vinnubrögð eru algerlega ný. Þess vegna viljum við koma því hér skýrt á framfæri að við sættum okkur ekki við þetta. Þetta er ekki til eftirbreytni. Meiri hlutinn hefði betur farið fram með allt öðrum hætti hvað þetta varðar. Við teljum þetta mjög óeðlilegt og að ekki sé hægt að skapa frið um störf í þinginu, virðulegi forseti, ef þetta eiga að vera vinnubrögðin sem meiri hlutinn ætlar að viðhafa.