134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[14:56]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér var gerð grein fyrir áliti 1. minni hluta allsherjarnefndar, sem ég er hluti af. Ég vil draga það fram, af því að þetta er eitt af fáum tækifærum sem maður hefur til þess að ræða málið, að þótt það sé ekki mjög stórt, pólitískt séð, þá eiga eftir að koma stærri mál fyrir þingið sem menn munu takast á um mun harðar. En vinnubrögðin hafa farið mjög fyrir brjóstið á okkur í Framsóknarflokknum varðandi þetta mál.

Það hefur verið leitað eftir þverpólitískri samstöðu um breytingar á þingsköpum hingað til. Það er auðvelt að rifja upp að Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, setti af stað nefndarstarf til þess að skoða breytingar á þingsköpum, breytingar á Stjórnarráði og því sem hér er til umræðu. Þeirri vinnu vatt ágætlega fram og núverandi hæstv. forsætisráðherra ræddi við forustu stjórnmálaflokka í lok síðasta kjörtímabils til þess að athuga hvort það væri hægt að ná þverpólitískri samstöðu um breytingar af þessum toga. En það var ekki svo og þá var hætt við að hreyfa því máli. Það er hægt að rekja fleiri svona dæmi langt aftur í tímann þar sem alltaf hefur verið mynduð þverpólitísk samstaða. Núna er það ekki gert. Hér er farið fram án þess að reyna að mynda þverpólitíska samstöðu og afbrigðum beitt til að koma málum eins hratt í gegn og hægt er. Við gerum verulegar athugasemdir við þessi vinnubrögð, virðulegur forseti.

Vinnubrögðin eru einnig í ósamræmi við það sem ríkisstjórnarflokkarnir sjálfir hafa boðað. Það kemur skýrt fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að hún vilji eiga gott samstarf við alla flokka á Alþingi. En ég tel að þetta fyrsta dæmi sýni að það er ekki mikil innistæða fyrir þessum orðum þeirra. Einnig segir að ríkisstjórnin vilji standa vörð um sjálfstæði Alþingis. Það er alls ekki hægt að líta svo á að það sé farið eftir þeim anda þegar ekki er einu sinni reynt að ná samstöðu um þingsköpin.

Við hefðum talið eðlilegt, eins og komið hefur fram, að vinna málin saman. Það blasir við þegar greinargerðin með frumvarpinu um þingsköpin er lesin. Þar segir að nefndir þingsins endurspegli Stjórnarráðið. Það er sem sagt verið að reyna að endurspegla málaflokka ráðuneytanna í nefndarskipaninni. Þess vegna er ekkert annað eðlilegt en að klára fyrst breytingar á Stjórnarráðinu eins og hefur verið boðað af ríkisstjórnarflokkunum. Síðan hefur þingið getað brugðist við því með því að skipa nefndum í þeim anda, ef menn hefðu viljað fara eftir því sem hingað til hefur tíðkast. Það er ekki gert. Þess vegna höfum við kallað eftir því að fá betri skýringar á því hvað eigi að felast í breytingum á Stjórnarráðinu. Við teljum að þingnefndirnar eigi að endurspegla nokkurn veginn það sem fellur undir ráðuneytin almennt. Við því hafa menn ekki orðið.

Við höfum líka kallað eftir skýringum og ekki fengið í allsherjarnefnd, skýringum á því að í frumvarpi um breytingar á Stjórnarráðinu er fjallað um að 41 starfsmaður verði fyrir áhrifum af þeim breytingum sem þar eru boðaðar. Þar er skýrt tiltekin tala þannig að maður skynjar að til sé listi yfir málaflokka sem eigi að færast á milli ráðuneyta. Sumt höfum við heyrt í tali ráðherra og þingmanna, annað ekki væntanlega og annað er óljóst skilst mér. En maður spyr sig: Af hverju fáum við ekki meiri upplýsingar en við höfum fengið? Ég tel að það hefði verið betra að klára að skipa í nefndirnar eins og þingsköp gera ráð fyrir. Það hefði verið sómi að því fyrir þingið, miklu eðlilegra að gera það þannig, og síðan hefðum við skipað í nýju nefndirnar eftir því sem þessu máli vatt fram, hvort sem það hefði verið í lok þessa þings eða á haustþingi. Líklega hefði verið langeðlilegast að gera það á haustþinginu. Þá hefði verið hægt að breyta Stjórnarráðinu í samræmi við þá málaflokka sem menn ætla að hafa undir ráðuneytum.

Við gerum verulegar athugasemdir við þessi vinnubrögð, virðulegur forseti. Við teljum að það eigi ekki að standa svona að málum og viljum vara við því að þessi vinnubrögð verði viðhöfð í framhaldinu þar sem meiri hlutinn getur beitt afbrigðum við öll mál. Ég tel að það sé ekki í anda þess sem ríkisstjórnin sjálf hefur gefið út, að hún vilji gott samstarf við alla flokka á Alþingi.