134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[15:16]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spyr utanríkisráðherra hvernig á því standi að nú er talið mikilvægt að takmarka frjálsa för vinnuafls frá Búlgaríu og Rúmeníu, sérstaklega með tilliti til þeirra sjónarmiða sem hæstv. utanríkisráðherra hefur áður sett fram í máli sínu, m.a. um að engar þær aðstæður væru uppi í íslensku þjóðfélagi sem réttlættu nokkrar takmarkanir frá löndum Evrópusambandsins.

Í öðru lagi vegna þess að þegar málin voru til umræðu í síðustu kosningabaráttu var vikið að því af hæstv. utanríkisráðherra að málflutningur okkar frjálslyndra í þessu efni væri ógeðfelldur og gerði það að verkum að við værum ekki stjórnarhæf, það væri ekki möguleiki að hafa samstarf við flokk sem teldi ástæðu til að bregðast við þeim félagslegu undirboðum sem stöfuðu af þeim mikla fjölda útlendinga sem hingað hafði komið til að leita sér atvinnu.

Hvað veldur, og hvaða munur er á að takmarka hér frjálsa för launþega frá þessum tveimur ríkjum á sama tíma og það er talið með öllu eðlilegt og allt í lagi að heimila innflutning frá öðrum nýjum löndum Evrópusambandsins? Hver er eðlismunurinn? Er einhver munur á þeim mönnum sem koma frá Rúmeníu og Búlgaríu og hinum frá Póllandi, Litháen, Eistlandi, Lettlandi og fleirum? Hver er munurinn?