134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[15:18]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil í þessu sambandi minna á að þegar 10 ný ríki gerðust aðilar að Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu árið 2004 var jafnframt ákveðið að nýta þann aðlögunartíma sem þá var hægt að nýta, þ.e. tveggja ára aðlögunartíma til að byrja með og síðan með möguleika á framlengingu, þegar samningurinn var gerður um stækkunina árið 2004.

Þegar hins vegar kom til umræðu á þinginu hvort framlengja ætti þá aðlögun varð niðurstaða meiri hluta Alþingis að ekki væri ástæða til að nýta framlenginguna. Það má segja að núna förum við að með alveg sama hætti, þ.e. þegar þessi tvö nýju ríki gerast aðilar að Evrópusambandinu, Evrópska efnahagssvæðinu, nýtum við þann aðlögunartíma sem er, eins og ég sagði, eitt og hálft ár sem er ekki langur tími. Síðan verður að takast til sérstakrar skoðunar hér á þingi þegar þar að kemur hvort við teljum ástæðu til að framlengja það eða ekki. Það er sjálfstæð ákvörðun.

Mér finnst fullkomlega eðlilegt þegar um er að ræða ný ríki sem gerast aðilar að þessum samningi að nýttur sé aðlögunartíminn, sem er mjög skammur, til þess að átta sig á því hvaða áhrif það hefur og hvort það hefur í för með sér einhverjar breytingar á tilflutningi fólks til landsins að af þessari stækkun verður.

Hér er nú um að ræða eitt og hálft ár til aðlögunar vegna þessara breytinga, rétt eins og gert var 2004 og var ekki ágreiningur um þá. Hins vegar var um það ágreiningur við Frjálslynda flokkinn hér á þingi hvort nýta bæri framlenginguna þegar hún kom til framkvæmda.