134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[15:25]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum í framhaldi af fullgildingu samnings um aðild Rúmena og Búlgara að Evrópska efnahagssvæðinu. Ég ætla ekki að ræða aðra efnisþætti þessa frumvarps en þann sem lýtur að því að opna ekki íslenskan vinnumarkað strax fyrir íbúum þessara landa, þ.e. þann sem snýr að því að nýta aðlögunartímann og fresta því í tæp tvö ár að íbúar þessara landa njóti hér ákvæða um frjálsa för til vinnu á Íslandi. Eins og komið hefur fram er hér um að ræða frestun í tæp tvö ár, til 1. janúar 2009, en þó mun heimilt ef síðar yrði samþykkt með sérstökum rökum að framlengja það enn frekar og jafnvel til 1. janúar 2014. Maður hlýtur að spyrja sig, hæstv. forseti, hvaða rök liggi að baki þeirri ákvörðun stjórnvalda að fresta gildistöku þessa. Rökin er að finna á blaðsíðu 7 í greinargerð með frumvarpinu og hæstv. utanríkisráðherra las þau orðrétt upp hér áðan. Reyndar sagði hæstv. ráðherra að þetta væri gert að vel yfirlögðu ráði, þetta væri í rauninni bara svipað og áður, og af því að þetta hefði verið gert áður vildi hún gera þetta eins og þá, þ.e. 2004 þegar Evrópusambandið var stækkað síðast.

Í greinargerðinni kemur fram að þessu beri að fresta, m.a. vegna þeirrar þenslu sem er á íslenskum vinnumarkaði, þ.e. vegna stóriðjustefnunnar sem hér hefur verið við lýði undanfarin ár og allir eru sammála um að hafi valdið og sé kveikjan að þeirri þenslu sem er á vinnumarkaði. Það er bent á að nú séu útlendingar um 9% af íslenskum vinnumarkaði og svo segir, með leyfi forseta, „en svo virðist sem erlendir ríkisborgarar dveljist hér í lengri tíma en áður og hugi jafnvel að langtímadvöl“.

Í ljósi þessa segir síðan að það sé nauðsynlegt að fylgjast með fjölda Rúmena og Búlgara sem kunni að koma hingað til lands til viðbótar því launafólki sem þegar hefur aðgengi að lausum störfum á erlendum vinnumarkaði.

Þessar breytingar þýða í raun að staða íbúa Rúmeníu og Búlgaríu verður að íslenskum lögum óbreytt frá því sem nú er þrátt fyrir aðild þeirra að Evrópusambandinu að því er varðar veitingu atvinnuleyfa og dvalarleyfa. Þeir verða sem sagt að hafa hér tímabundið atvinnuleyfi áður en þeir koma til starfa á Íslandi. Þó munu íbúar Búlgaríu og Rúmeníu fá forgang umfram íbúa sem eru utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að reiknað er með því að íbúar frá þessum löndum geti komið hingað hvort eð er ef áframhaldandi þensla verður á íslenskum vinnumarkaði og íslensk stjórnvöld halda áfram að kalla eftir vinnuafli til framkvæmda hér í stóriðjumálum.

Munurinn er bara sá á íbúum þessara nýju landa og hinna sem áður hafa fengið aðild að íslenskum vinnumarkaði að þeir geta ekki flutt sig á milli atvinnurekenda ef þeim byðist betri vinna og þeir geta heldur ekki flutt sig milli atvinnurekenda ef kjör og aðbúnaður eru óforsvaranleg. Ég minni á varnaðarorð Vinstri grænna í tengslum við stóriðjustefnuna og þau áhrif sem hún hefur haft á vinnumarkaði, þau félagslegu undirboð og þá staðreynd að íslenskur vinnumarkaður hefur ekki verið og er ekki enn tilbúinn til að taka við þeim fjölda erlendra verkamanna sem stjórnarstefnan þó kallar á. Í þessu tilliti minni ég á frumvörp hv. þm. Atla Gíslasonar og fleiri þingmanna Vinstri grænna á 130. og 131. löggjafarþingi, um atvinnuréttindi útlendinga og um starfskjör þeirra, m.a. um aðgang trúnaðarmanna að upplýsingum um launakjör útlendinga.

Maður hlýtur að velta því fyrir sér af hverju nú er nauðsynlegt að mati stjórnvalda að beita þessum ákvæðum og nýta aðlögunarfrestinn. Við stóru stækkunina, þ.e. 2004 þegar fjölgaði í Evrópusambandinu úr 15 í 25 lönd, nýttu Íslendingar sér vissulega þessa aðlögunarfresti en þegar að því kom síðasta vor að framlengja þá var, eins og hér hefur komið fram í umræðunum, ákveðið að gera það ekki. Nú njóta þess vegna tæplega 500 millj. manna í Evrópu þess réttar sem frjáls för milli landa á Evrópska efnahagssvæðinu veitir til vinnu. Ég sé ekki að það séu neinar sérstakar forsendur til þess, eða ég spyr: Hvaða rök eru gegn því að í stað tæplega 500 millj. manna sem nú njóta þessa réttar verði það mest 530 millj. manna, þ.e. 8 millj. Búlgara og 22 millj. Rúmena til viðbótar?

Hér er, hæstv. forseti, að mínu mati um að ræða bitamun en ekki fjár. Ég spyr mig: Til hvers hafa menn ákveðið að nýta sér þennan aðlögunarfrest?

Menn tóku ákvörðun um að ekki þyrfti að nýta aðlögunartímann frekar síðasta vor vegna 500 millj., þ.e. þeirra nýju 10 ríkja sem þá var um að ræða. Aðlögunartíminn ætti að vera liðinn og ef ekki var þörf á að endurnýja fresti gagnvart 10 ríkjum á síðasta ári finnst manni eiginlega að ekki ætti heldur að vera þörf á því að fresta aðildinni fyrir þau tvö ríki sem hér um ræðir.

Hins vegar verður að viðurkennast að Íslendingar hafa nýtt þennan aðlögunartíma mjög illa. Því miður hefur ekki verið mörkuð nein langtímastefna í því hvernig tekið er á móti útlendingum til vinnu, þessum 500 millj. sem þann rétt hafa, hvernig við tökum á móti þeim hópum sem íslensk stjórnvöld kalla eftir hér í vinnu, jafnvel við þrælahald eins og tíðkast hefur á Kárahnjúkum.

Það er góðra gjalda vert sem hér var gert á síðustu skrefum þingsins í vor, þ.e. að veita 100 millj. króna til íslenskukennslu, en það er langtímastefna sem gildir í þessum málum og langtímaviðbrögð, framtíðarsýn. Fyrst og fremst hlýtur þetta nefnilega að vera spurning um atvinnustefnu, um framboð atvinnu á vinnumarkaði og spurning um hvort hér eigi áfram að ríkja sú stóriðjustefna sem var við lýði á síðasta kjörtímabili og árunum þar á undan.

Maður hlýtur að spyrja hvort það sé ástæðan fyrir því að stjórnvöld nú, þessi nýja ríkisstjórn með aðild Samfylkingarinnar, taki ákvörðun um að fara fram á þessa frestun.

Því er ekki að leyna að fregnir af því að Orkuveita Reykjavíkur hafi í gær gert samninga um sölu orku til nýrra álvera í Helguvík og stækkunar í Straumsvík þar sem um sé að ræða yfir 500 megavatta sölusamninga hljóta að vekja athygli og velta upp þeirri spurningu sem ég legg hér fram til hæstv. utanríkisráðherra, hvort stóriðjustefnan sem sumir flokkar lýstu dauða á síðasta kjörtímabili hafi nú verið endurlífguð með aðkomu Samfylkingarinnar að þessari ríkisstjórn.

Ég ætla ekki að fara inn á það hvað veldur þeim gríðarlegu fólksflutningum sem nú eiga sér stað í Evrópu þar sem ungir karlmenn þeytast á milli landa í stórum hópum og láta bjóða sér jafnvel hvað sem er, eins og við þekkjum frá Kárahnjúkum, en ég hlýt að spyrja áfram um forsendur fyrir þessari frestun. Ég hlýt að spyrja hvernig t.d. Norðmenn bregðast við. Ætla þeir að nýta sér þessa fresti, hæstv. utanríkisráðherra? Og ég fer fram á frekari rökstuðning um það til hvers menn ætla að nota þennan aðlögunartíma. Aðlögunartíminn frá 2004 hefur einfaldlega ekki verið notaður nógu vel. Menn hljóta, ef það er þörf á þessum aðlögunartíma núna, að geta upplýst hvernig þeir ætli að nota hann.

Spurningin er, eins og varpað var fram í leiðara Morgunblaðsins fyrir nokkrum dögum: Hvað hefur ný ríkisstjórn lært af þrælahaldinu við Kárahnjúka, af samskiptunum við Impregilo? Hvað hafa menn lært og hvernig ætla menn að taka á móti útlendingum hér við vinnu?

Ég neita því ekki að margar spurningar leita á mann af þessum ástæðum. Ég óttast að þessi ákvörðun gæti ýtt undir fordóma gegn íbúum þessara tveggja ríkja sérstaklega, og það teldi ég mjög slæmt, en ég hvet til þess að þessi mál verði unnin mjög vel í þeim nefndum sem um þau eiga að fjalla og að þar verði svarað spurningum sem ég hef varpað hér fram um það hvernig önnur ríki ætli að bregðast við, hvaða raunverulegu ástæður liggi hér að baki og hvernig menn ætli að nota þennan aðlögunarfrest.

Enn og aftur spyr ég hæstv. ráðherra: Er nýtt stóriðjutímabil runnið upp með aðkomu Samfylkingarinnar að þessari ríkisstjórn?