134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[15:40]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir þær upplýsingar sem hér komu fram, m.a. að Danmörk hefur ákveðið að nýta sér undanþáguna sem hér er lögð til að verði tekin upp á Íslandi. Ég spurði sérstaklega um Noreg vegna Evrópska efnahagssvæðisins, EES, og kannski hæstv. ráðherra geti svarað því.

Varðandi nauðsyn þess að framlengja nú frest gagnvart 30 milljónum manna í Evrópu, þ.e. 8 milljónum Búlgara, 22 milljónum Rúmena, til að hrinda í framkvæmd og undirbúa framkvæmdir við lagasetningu sem sett var á Alþingi eftir að ákveðið hafði verið að fara ekki fram á frekari frestun þá sé ég ekki alveg samhengið. Mér finnst auðvitað eðlilegt að það verði tekinn tími til þess að hrinda í framkvæmd þeim áformum sem sú lagasetning býður upp á. En ég sé ekki að sú löggjöf sem er sett eftir að ákveðið var að fara ekki fram á frekari fresti í þessum efnum breyti neinu í þeim. Ég spurði: Hvernig ætla menn að nota þennan frest sérstaklega gagnvart íbúum þessara landa vegna þess að það er ekki um frest gagnvart íbúum annarra landa að ræða?