134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[15:41]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki upplýsingar um Noreg og það mun auðvitað koma fram í nefndarstarfinu að því er varðar Noreg en ég veit þó að þeir sem nýta sér ekki frestinn eru Svíþjóð og Finnland ásamt Tékklandi, Eistlandi, Kýpur, Lettlandi, Litháen, Póllandi og Slóveníu svo dæmi séu tekin. En það eru miklu fleiri lönd sem hafa ákveðið að nýta sér frestinn, m.a. eins og ég sagði lönd sem við fyrri stækkun ákváðu að nýta sér þetta ekki.

En það eru margvísleg framkvæmdaatriði í stjórnsýslunni sem á eftir að útfæra til þess að búa okkur betur undir komu erlends vinnuafls hingað til landsins. Ég gæti talið það upp en hef ekki tíma til þess hér. Þetta snýr mjög að stjórnsýslunni að efla samvinnu stjórnvalda sem koma að þessum málaflokki. Við erum að tala um lögreglu, skattyfirvöld, Tryggingastofnun, útlendingaeftirlit, Vinnueftirlit, Vinnumálastofnun og þjóðskrá. Það skiptir miklu máli að þetta sé í lagi og stjórnsýslan sé reiðubúin að taka á móti því erlenda vinnuafli sem hingað kemur.