134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[16:10]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. formanni utanríkismálanefndar og þakka góða framsögu. Ég tek jafnframt undir með honum sem varaformaður utanríkismálanefndar að við munum reyna að vinna þetta mál vel og kanna það en jafnframt hraða því enda mikilvægt fyrir íslenska hagsmuni að þetta mál gangi fram fljótt og vel.

Það er í eðli EES-samningsins að hann tekur breytingum frá einum tíma til annars. Hann er fljótandi samningur og aðildarríkjunum fjölgar eftir því sem aðildarríkjum Evrópusambandsins hefur fjölgað. Það er hins vegar tímanna tákn hvernig umræðan hefur breyst um aðild okkar að EES og um gildi þess í áranna rás.

Þegar EES-samningurinn var til umræðu fyrir 14 árum í þessum sal, snerist umræðan að langmestu leyti um fisk. Hún snerist um hinn hefðbundna mælikvarða um það hvort við fengjum nægilega mikið í okkar hlut í tollívilnunum til að réttlæta tilkostnaðinn af samningnum. Þar var mjög einfaldur krónu á móti krónu reikningur í samræmi við einhæft eðli íslensks hagkerfis á þeim tíma. Út frá þeim hefðbundna og gamla mælikvarða er reikningurinn einfaldur. Fyrir þennan samning munum við greiða 130 millj. kr. á ári í Þróunarsjóð EFTA og fáum í staðinn tollaívilnanir upp á 70 millj. Ávinningurinn er því viðunandi.

En reynslan hefur kennt okkur að fátt er gagnsminna en reikningar af þessu tagi því EES-samningurinn hefur skapað tækifæri sem enginn sá fyrir þegar til hans var stofnað. Sá hefði verið kallaður undarlegur maður sem úr þessum ræðustól hefði velt upp þeim möguleika, svo ekki sé meira sagt, að Ísland ætti eftir að vera útflytjandi á sviði fjármálaþjónustu, á sviði fjarskiptaþjónustu eða á sviði lyfjaframleiðslu. En það er einmitt það sem við höfum orðið.

Þess vegna er það sérstakt fagnaðarefni að stækkun heimamarkaðar okkar í krafti EES-svæðisins taki núna líka til þessara ríkja, Búlgaríu og Rúmeníu, þar sem íslensk fyrirtæki hafa á undanförnum árum unnið gott starf og haslað sér völl.

Það er því með öðrum orðum allt önnur sýn á tækifærin sem ræður umræðu okkar nú og þau verkefni sem til úrlausnar eru nú og sem við þurfum að hafa augun á eru annars konar. Þá komum við að því sem hefur verið fyrirferðarmikið í þessari umræðu, sem er frestun ákvæða um frjálsa för launþega fyrir íbúa Búlgaríu og Rúmeníu.

Eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. utanríkisráðherra þá er hér um tímabundið fyrirkomulag að ræða. Það er nauðsynlegt að nýta þessa frestun nú ef á annað borð á að vera hægt að nýta það á síðari stigum. Ef ríki kjósa að nýta frestunina ekki í upphafi þá verður ekki aftur snúið.

Í ákvörðuninni um að nýta þennan fyrirvara nú er ekki falin nein stefnubreyting. Hún er í fullu samræmi við þá ákvörðun sem tekin var við aðild hinna 10 nýju aðildarríkja árið 2004, þar sem Alþingi ákvað í upphafi að nýta aðlögunartímann. Með þessu fyrirkomulagi er t.d. Vinnumálastofnun gert auðveldara um vik að hafa virkt eftirlit með ráðningarkjörum ríkisborgara frá Búlgaríu og Rúmeníu. Stofnunin getur m.a. synjað um veitingu atvinnuleyfis ef starfskjör eru ekki í samræmi við gildandi kjarasamninga. Það er unnt að grípa til aðgerða með tiltölulega auðveldum hætti ef aðstæður breytast á vinnumarkaði.

Hér hefur nokkuð verið rætt um það hvaða ástæður eru fyrir því að þessum fyrirvara sé beitt í þessu tilviki. Menn hafa nokkuð rætt um Kárahnjúka í því samhengi.

Sá óstöðugleiki sem verið hefur í íslensku efnahagslífi á undanförnum árum hefur auðvitað haft áhrif á vinnumarkaðinn og ekki bara á Kárahnjúkum heldur víða annars staðar í samfélaginu. Við vitum að þetta mikla efnahagslega ójafnvægi hefur að mörgu leyti skapað neikvæðar aðstæður á vinnumarkaði. Það hefur ýtt mjög undir eftirspurn eftir vinnuafli og þá með þeim hætti að það hefur jafnframt orðið svo ör eftirspurn að það hafa skapast þær aðstæður að fólki hefur verið haldið í óboðlegum aðstæðum víða hér á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf því ekki að fara austur á Kárahnjúka til að finna dæmi þess.

Við vitum að fólki er haldið í óboðlegu húsnæði. Við vitum að því hefur þar af leiðandi verið meinað um lögheimilisskráningu og því er þar með einnig meinað um sjúkratryggingar í landinu. Það er mjög mikilvægt að horfast í augu við þennan vanda og að við áttum okkur á því að íslenskt stjórnkerfi var ekki á nokkurn hátt búið undir þann fjölda sem þetta ójafnvægi kallaði á. Þess vegna er mikilvægt að við metum aðstæðurnar núna þegar fleiri ríki bætast við.

Því var eðlilega velt upp í umræðunni áðan hvort það væri einhver slíkur eðlismunur nú að réttlætti að fyrirvaranum yrði viðhaldið gagnvart þessum 30 milljónum manna fyrst hann er ekki í gildi gagnvart öðrum lengur. Þá er því til að svara að við síðustu stækkun bættust einhvers staðar í kringum 100 milljónir manna við vinnumarkaðinn og að flestu leyti, ekki öllu, var þar um að ræða fólk frá ríkjum þar sem laun eru lág. Hér bætast við 30 milljónir til viðbótar. Ég tel fulla ástæðu til þess að við förum varlega í þessu efni núna, einmitt til þess að reyna að koma í veg fyrir að fólk frá þessum ríkjum verði ofurselt sömu aðstæðum og margir sem hingað hafa komið á undanförnum árum.

Eitt af því sem t.d. er mikilvægt í því efni er að stéttarfélögin fái ráðrúm til að undirbúa kynningarefni á tungumálum þessara ríkja og að Samtök atvinnulífsins verði virk í samvinnu með verkalýðshreyfingunni að þessu leyti. Það er einnig rétt að halda því hér til haga að samstaða er um það meðal aðila vinnumarkaðarins að nýta þennan aðlögunartíma.

Það er gríðarlega mikilvægt að verkalýðshreyfingin sé í stakk búin til að upplýsa fólk um sín kjör. Þannig getum við með verkalýðshreyfingunni sinnt því verkefni að verja hag jafnt þessa fólks og þess fólks sem er hér fyrir á vinnumarkaði með jákvæðum hætti, með því að upplýsa fólk um réttindi sín og kjör. Þannig verði komið í veg fyrir félagsleg undirboð og þannig komum við í veg fyrir að vegið sé að grundvallarhagsmunum allra á vinnumarkaði, líka þeirra sem fyrir eru. Við megum aldrei skapa slíkar aðstæður að það fólk sem er fyrir á vinnumarkaði hrekist út af honum vegna félagslegra undirboða. Við verðum hins vegar alltaf að gæta þess að búa ekki til hindranir í garð þeirra sem eru að koma til landsins heldur þvert á móti að vinna málið með jákvæðum hætti og verja réttindi allra, bæði þeirra sem vilja koma inn á vinnumarkaðinn og hinna sem fyrir eru.

Vegna þess að hér hefur nokkuð verið spurt um afstöðu Noregs þá er rétt að taka það fram að samkvæmt mínum upplýsingum hyggjast Norðmenn nýta sér þennan fyrirvara og það munu Danir einnig gera. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að fylgjast að með þessum nánustu nágrannaríkjum okkar, ekki síst Norðmönnum sem félögum okkar í EES. Við breytingar af þessum toga er mikilvægt að ganga ekki úr takti við okkar nánustu nágranna heldur halda samræmi og vinna málin í samhengi.

Að síðustu vil ég einfaldlega ítreka stuðning minn við þetta mál. Ég held að það sé hægt að treysta til fulls hæstv. félagsmálaráðherra í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins til að búa vel í haginn fyrir komu fólks frá Búlgaríu og Rúmeníu hingað til lands. En við skulum gæta þess að vanda þar vel til verka svo við lendum ekki í einhverjum ógöngum.