134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[16:20]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það segir svo í kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar frá því í vor að Samfylkingin ætli að beita sér fyrir því að atvinnuleyfi fólks af erlendum uppruna verði bundið persónu eða viðkomandi einstaklingi en ekki vinnustað og vinnuveitanda, þó þannig að skyldur atvinnurekandans séu hinar sömu og áður. Ég er sammála þessum lið í kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar.

Það frumvarp sem hér er lagt fram ber hins vegar með sér að það er eitt af fyrstu verkum nýrrar stjórnar í málefnum erlends verkafólks að meina Rúmenum og Búlgörum að vinna hér um sinn nema um sé að ræða fólk sem komi í gegnum starfsmannaleigur. Er þetta í takt við þau einstaklingsbundnu réttindi sem við viljum halda í heiðri?

Nú er það þannig, herra forseti, að erlend ríkisstjórn hefur m.a. séð ástæðu til að senda hingað sendiherra sinn til að kanna meintar ómanneskjulegar og ömurlegar vinnuaðstæður erlends verkafólks hér á landi. Ásakanir um einelti og kynferðislega áreitni erlends verkafólks á einum af stærsta vinnustað landsins hafa einnig komið fram. Þessi mál eru bundin starfsmannaleigum sem ítrekað var varað við fyrir nokkrum árum í sölum Alþingis. Á nú að leyfa Búlgörum og Rúmenum að vinna hér á landi einungis á vegum starfsmannaleigna? Er ekki meira um vert að tryggja að allir íbúar landsins, allir sem hér búa og hingað koma til starfa séu hér í hvívetna á grundvelli jafnréttis, jafnræðis, virðingar og mannréttinda?

Það kann að hafa farið fram hjá mér, herra forseti, en ég man ekki til þess að fulltrúar hæstv. ríkisstjórnar hafi farið á framkvæmdasvæðið fyrir austan til að kanna þar aðstæður með eigin augum. Ég man heldur ekki til þess að fulltrúar hæstv. ríkisstjórnar hafi fyrirskipað rannsókn á því hvort ásakanir um stofnanabundið kynþáttamisrétti og kynferðislega áreitni á vegum starfsmannaleigu hér á landi eigi við rök að styðjast. Þetta hefur að því ég best veit ekki verið gert.

Hvað er gert? Jú, Evrópusambandsréttindi Rúmena og Búlgara eru sett á bið og þeim einungis gert fært að vinna hérlendis í gegnum starfsmannaleigur eins og áður segir. Hver er ástæðan fyrir því að meðhöndla þessi tvö ríki með þessum hætti? Hví á að meðhöndla þau öðruvísi en aðra?

Núverandi ríkisstjórn heldur uppi stefnu fyrri stjórnar í þessum efnum en án þess að gefa fyrir því ítarlegan rökstuðning. Víðtæks rökstuðnings er þörf ef málefnaleg afstaða þingheims á að geta legið fyrir.

Síðastliðið haust þegar fram fór umræða um fjölgun útlendinga hérlendis sagði hæstv. utanríkisráðherra í ræðu á Alþingi, með leyfi forseta:

„1. maí síðastliðinn var enginn örlagadagur í þessu máli. 1. janúar næstkomandi verður það heldur ekki. Þó svo að ríkisstjórnin hafi nú ákveðið að nýta sér aðlögunartímann gagnvart Rúmeníu og Búlgaríu þá þýðir það fyrst og fremst að taka þarf miklu fastar á málum hvað varðar starfsmannaleigurnar, ábyrgð atvinnurekenda, þ.e. notendaábyrgðina sem snýr að starfsmannaleigunum. Því það var auðvitað málið sem menn voru að reyna að takast á við 1. maí þegar þeir ákváðu það að fólk ætti að geta komið til landsins á eigin forsendum en ekki einvörðungu í gegnum starfsmannaleigur.“

Ég spyr, herra forseti: Hvað ætlar núverandi ríkisstjórn að gera til að taka á þessum málum? Viljum við ekki helst hafa hlutina þannig að erlendir starfsmenn séu fyrst og fremst ráðnir með beinum hætti með ráðningarsamningum, samningum sem byggja á íslenskum kjarasamningum? Gengur það ekki gegn réttri nálgun í þessum efnum að sjá hér erlenda starfsmenn fyrst og fremst starfandi á vegum starfsmannaleigna eða sem þjónustuveitendur án tengsla við íslenska kjarasamninga? Gildir þá einu hvort um er að ræða Búlgara, Rúmena eða aðra.

Það er ekki við erlenda verkamenn að sakast í því hve illa hefur verið staðið að málum í þessum efnum. Það voru ekki pólskir eða kínverskir verkamenn sem tóku ákvörðun um að byggja Kárahnjúkavirkjun. Það verða hvorki Rúmenar né Búlgarar sem ákveða atvinnu-, efnahags- og stóriðjustefnu nýrrar stjórnar. Það voru íslensk stjórnvöld sem með aðgerðum sínum og atvinnustefnu hafa kallað eftir stórfelldum flutningi erlends vinnufólks hingað til starfa og það er nýrrar stjórnar að tryggja í einu og öllu að allir vinnandi menn og konur hér á landi, hvaðan sem þau koma, sitji við eitt og sama borð réttinda og kjara.

Staðreyndin er sú að þeir sem hingað koma frá ESB þurfa að finna starf innan sex mánaða ellegar fara af landi brott. Hverjar eru þá hinar aðkallandi aðstæður nú að beita þurfi aðlögunarákvæði í garð Rúmena og Búlgara sérstaklega? Hæstv. utanríkisráðherra talar um skamman tíma, eitt og hálft ár, í þessum efnum en í fjölmiðlum höfum við lesið um að ný stjórn hyggist jafnvel framlengja tímann til ársins 2014. Það liggur ljóst fyrir, eins og bæði Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð héldu skýlaust fram í nýliðinni kosningabaráttu og á liðnum árum, að það er fyrst og fremst atvinnustefna stjórnvalda sem ræður komu erlends verkafólks hingað til lands. Það eru ekki varnaglar, frestanir eða fyrirvarar í alþjóðasamningum heldur atvinnustefnan í landinu og m.a. þá hin alræmda stóriðjustefna sem fyrst og fremst knýr á um aukið streymi erlendra verkamanna.

Þá er ekki úr vegi að spyrja, herra forseti, hvort það sé eitthvað í atvinnustefnu núverandi ríkisstjórnar sem gerir það að verkum að hér muni áfram verða mikil eftirspurn eftir verkamönnum af erlendum uppruna. Er það svo? Hver er hinn eiginlegi rökstuðningur fyrir því að þessu ákvæði skuli nú beitt? Þessu ákvæði var beitt þegar ESB stækkaði með margfalt dramatískari hætti en ESB-aðild Rúmena og Búlgara knýr nú á um. Hvernig var sá aðlögunartími nýttur? Var búið í haginn fyrir framtíðina? Nei, það var því miður ekki gert með þeim hætti sem vera skyldi eins og dæmin sanna ítrekað.

Ef núverandi ríkisstjórn ætlar að beita þessu ákvæði til að knýja á um stórbætta heildarstefnumótun, aðgerðaplan og starfsáætlun um málefni innflytjenda, málefni fólks af erlendum uppruna, þá hlýtur ríkisstjórnin að vilja skýra okkur skýrt og skorinort frá því hvernig hún ætli að standa að þeim málum og hvers vegna hún þurfi á þessum aðlögunartíma að halda, hvernig sá tími verði nýttur. Sá aðlögunartími hefur hingað til ekki gert mikið gagn og var þó um margfalt stærri mál að ræða þá, enda er það eins og áður segir atvinnustefna, jafnvægisleysi og þensla sem ræður úrslitum í þessum efnum. Þar snýst málið um hið gamalkunna framboð og eftirspurn. Í þeim efnum kalla ég eftir boðuðu stóriðjuhléi sem Samfylkingin hélt á lofti í kosningabaráttunni og var þar sammála okkur Vinstri grænum um að slíkt væri algjört grundvallaratriði.

Þetta snýst að sjálfsögðu ekki bara um atvinnumál. Þetta snýst um fólk og fjölskyldur og manneskjulegt samfélag þar sem allir, hvaða uppruna sem þeir hafa yfir að búa, sitja jafnir. Ég vil leyfa mér að fullyrða að gera þurfi gríðarlegt átak í málefnum innflytjenda hérlendis og taka á öllum þeim mannlegu þáttum jafnræðis og þátttöku allra, óháð uppruna, í samfélaginu. Þetta þarf að vera eitt af forgangsverkefnum nýrrar stjórnar. Það er útilokað að líta á málefni fólks af erlendum uppruna sem afmarkað viðfangsefni eða einfalda spurningu um atvinnustig. Raunhæf stefna í þessum málum hlýtur að koma inn á öll svið stjórnmálanna og samfélagsins alls og vera órjúfanlegur þáttur í heildarstefnumótun til framtíðar.

Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að kynna sér ofan í kjölinn víðtæka stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessum efnum. Sú stefna kemur inn á fjölþættar og margbreytilegar hliðar málsins og setur fram skýr plön um þær aðgerðir sem grípa þarf til. Þar er m.a. komið inn á atvinnumál, frjálsa för og kjör erlends verkafólks hérlendis en það er eitt af grundsvallaratriðunum í þessum efnum að atvinnuleyfi skuli ávallt fylgja einstaklingi en ekki atvinnurekanda.

Herra forseti. Ef við á Alþingi eigum að geta tekið skýra málefnalega afstöðu til málsins hljótum við að verða að fá að vita nákvæmlega hvaða rökstuðningur og skýringar liggja að baki þessari ákvörðun. Við hljótum einnig að vilja fá afdráttarlaus svör um það hvaða heildarstefnu og aðgerðaplan ný ríkisstjórn sjái fyrir sér í málefnum fólks af erlendum uppruna, hvort heldur þeirra sem hingað koma til lengri tíma eða til tímabundinna verkefna. Sem fyrr segir þarf miklu meira til í þessum málaflokki en hingað til hefur verið framfylgt. Síðast en ekki síst væri hjálplegt að fá skýr svör um hina raunverulegu atvinnu-, efnahags- og stóriðjustefnu nýrrar stjórnar, því að eins og áður segir skiptir það sköpum í þessum efnum.