134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[16:30]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Herra forseti. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með þessum umræðum og hve raunverulega takmörkuð svör hafa komið frá flutningsmönnum þessa frumvarps um það hverjar hinar raunverulegu ástæður eru fyrir því að það skuli vera flutt og hvernig á því stendur að þeir aðilar sem jafnvel töluðu um frjálsa för fólks, nánast undantekningarlaust, skuli nú telja nauðsynlegt að bregðast við með þeim hætti sem um er að ræða í þessu frumvarpi. Þessi sjónarmið komu mjög vel fram vegna þeirra beittu spurninga sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir bar fram áðan.

Það vakti athygli mína að formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Bjarni Benediktsson, sagði að það sem skipti máli væri að þarna væri um það mikinn viðbótarfjölda að ræða sem kæmi inn á vinnumarkaðinn, þessar rúmu 30 millj. manna sem eru í Búlgaríu og Rúmeníu, að það réttlætti þá takmörkun sem hér er um að ræða. Skiptu þá ekki máli þær 200 millj. sem komu inn á vinnumarkaðinn í nýju Evrópusambandsríkjunum, allur sá fjöldi, þegar hætt var við að nýta þá undanþágu sem bent var á að nauðsynlegt væri að nýta vegna aðstæðna á íslenskum vinnumarkaði?

Þegar V. viðauki greinargerðar með frumvarpinu er skoðaður, um frjálsa för launþega, er sérstaklega vikið að því að íslenskur vinnumarkaður sé viðkvæmur og það geti brugðið til beggja vona á skammri stundu. Það er vissulega rétt. Á það höfum við í Frjálslynda flokknum ítrekað bent. Það er nauðsynlegt að fara að með gát og 300 þús. manna þjóð þarf að gera það, en það hefur ekki verið gert. Það hefur verið vanrækt að hér væri nýttur aðlögunartími sem var fyrir hendi og átti að nýta þannig að það væri mótuð stefna varðandi innflytjendur fyrir fram en ekki eftir á.

Það var ekki fyrr en málið var gjörsamlega komið úr öllum böndum, það var ekki hægt að afgreiða kennitölur, kerfið réð ekki við neitt, börn þessa fólks fengu ekki eðlilega fræðslu, sem einhver rankaði við sér. Þá var með krampakenndum viðbrögðum ákveðið að verja 100 millj. kr. í íslenskukennslu, algjörlega ósundurgreint hvernig það skyldi gert. Mér skilst að sú fjárhæð sé öll uppurin nú þegar og það er ljóst að hún var ekki næg.

Forstöðumaður Alþjóðahúss hefur sagt opinberlega að það væri vandamál að ákveðinn hópur þeirra sem hingað hafa komið fyllti tölu þeirra sem verst væru settir í þjóðfélaginu og það vantaði algjörlega félagsleg úrræði fyrir þann hóp. Aðlögunartíminn var ekki nýttur.

Nú talar ríkisstjórnin um nauðsyn þess að taka myndarlega á málinu, móta stefnu — sem ég hélt að hefði verið mótuð í vor af þáverandi ríkisstjórn — og ekki nóg með að móta stefnu, heldur er talað um aðgerðaáætlun. Ég spyr. Aðgerðaáætlun um hvað?

Við í Frjálslynda flokknum höfðum og boðuðum ákveðna aðgerðaáætlun. Það var spurningin um það að aðlaga þá sem hingað koma, gefa þeim tækifæri til að aðlagast íslensku samfélagi þannig að það væru ekki margar þjóðir í þessu landi. Við ræddum um að það væri nauðsynlegt að þeir sem hingað kæmu og ætluðu sér að festa hér búsetu ættu kost á því að fá a.m.k. 500 tíma fræðslu í íslensku og a.m.k. 300 tíma fræðslu um íslenskt samfélag. Það fannst mér, og finnst, lágmark þegar um er að ræða að laga þá sem hingað vilja koma og vilja búa hér að þessu þjóðfélagi. Það er mikilvægt í fyrsta lagi að við tökum vel á móti þeim sem hingað eru komnir, gætum þess að þeir njóti allra mannréttinda, en síðan er annað atriði sem ég hef vakið athygli á og tel mjög mikilvægt sem er að við verðum að gæta þess að það sé ekki það mikill straumur innflytjenda til landsins að kerfið ráði ekki við hann. Það getur leitt til félagslegra undirboða. Ég hef gagnrýnt að félagsleg undirboð séu til staðar.

Ég vakti athygli á því í fyrri ræðu sem forustumaður Verkalýðsfélagsins á Akranesi hafði um þetta mál að segja þar sem stór hópur verkamanna erlendis frá hefur verið óskráður í vinnu hjá ákveðnu fyrirtæki. Venjulegast er það þannig þegar svo háttar til að það er bara toppurinn á ísjakanum. Ég er hræddur um að flestir þeir sem hér eru inni viti að þannig er það. Þegar menn eru ekki með atvinnuréttindi, eru ekki skráðir, er misnotkunin iðulega skammt undan.

Þrátt fyrir að félagsleg undirboð hafi verið til staðar vegna hins mikla straums innflytjenda hingað sem í raun hefur leitt til ákveðinnar launalækkunar hefur það ekki skilað sér í lægra verði að einu eða neinu leyti til neytenda. Af hverju stafar það og hver tekur mismuninn?

Það er eitt atriði sem ég vil í þessu sambandi vekja athygli á, virðulegi forseti. Núna þegar stjórnandi helsta fyrirtækis á Vestfjörðum ákveður að selja kvótann sinn og segja upp starfsfólki sínu, Kambur á Flateyri, kemur í ljós að þar er starfandi stór hópur fólks sem nýtur engra réttinda, hópur fólks sem annaðhvort lendir í verulegum félagslegum erfiðleikum ef ekki er hreinlega um að ræða neyðarástand, ef skattgreiðendur og íslensk stjórnvöld taka sig ekki til og bjarga því vegna þess að ekki hefur verið nýttur neinn aðlögunartími. Þess hefur ekki verið gætt að taka á móti því fólki sem hingað er komið og hefur jafnvel verið um árabil með eðlilegum hætti. Það er til vansa fyrir stjórnvöld. Það styður það sem við í Frjálslynda flokknum höfum haldið fram, að stjórnvöld vissu hreinlega ekki hvað um var að ræða, gerðu sér ekki grein fyrir því og gerðu engar tilraunir, a.m.k. ekki nægar, til að bregðast við.

Ég er sammála því að það er nauðsynlegt að taka myndarlega á varðandi vandamál innflytjenda. Skylda okkar er þó fyrst og fremst við þá sem hér eru en ekki þá sem hingað kunna að koma eða vilja koma.

Ég tek alveg heils hugar undir það sem segir hér í greinargerð með frumvarpinu, íslenskur vinnumarkaður er lítill og hann er viðkvæmur og þess vegna verðum við að geta haft fulla stjórn á því með hvaða hætti frjálst flæði vinnuafls kemur til landsins. Því miður nýttum við okkur ekki þær takmarkanir sem við gátum nýtt okkur varðandi önnur ný ríki Evrópusambandsins en það hefði okkur borið að gera til að tryggja hagsmuni íslensku þjóðarinnar.

Það er spurningin um hvernig við á að bregðast. Ég tel einmitt vegna þeirra sjónarmiða sem koma fram í greinargerð með frumvarpinu að það sé ástæða til þess að leita eftir því við bandalagsþjóðir okkar á Evrópska efnahagssvæðinu að við getum nýtt okkur þá undanþágu og þá möguleika sem eru í 112. gr. samningsins ef kemur til samdráttar á íslenskum vinnumarkaði.

En það er nú einu sinni þannig, og þar verð ég að vera ósammála hv. síðasta ræðumanni, að erlent vinnuafl kemur ekki hingað eingöngu vegna stóriðjustefnu stjórnvalda. Það er ályktun sem er hrapað að án þess að rök fylgi eða séu á bak við. Ég get spurt: Hvernig stóð á því og hvernig stendur á því að erlent vinnuafl streymir til Bretlandseyja? Ekki er sérstök stóriðjustefna þar í gangi. Hvernig stendur á því að þetta vinnuafl hefur streymt til Írlands? Ég gæti nefnt fleiri ríki.

Það gerist einfaldlega vegna þess að það eru vandamál í þeim löndum þaðan sem fólkið streymir. Það er það sem veldur því að það leitar annarra leiða. Þar komum við að því sem kannski hefði átt að vera upphafsatriðið og höfuðatriðið varðandi það hvernig stendur á því og hvað getur réttlætt það að við beitum ákveðnum takmörkunum gagnvart frjálsu flæði verkafólks frá öðrum bandalagsríkjum. Hvað getur valdið því? Það er einfaldlega það að vinnumarkaður og þjóðfélagsumgjörð í þeim löndum er það vanþróað að það er hætt við því að vandamál skapist með því að hafa þetta óhefta frelsi, bæði varðandi innanlandsmarkað í þeim ríkjum og öðrum ríkjum sem fá það yfir sig.

Þá er ég að tala um lönd eins og Pólland þar sem hefur verið mikið og viðvarandi atvinnuleysi og vandamál í efnahagsmálum, fyrst og fremst vegna þess hvernig ákveðin stefna Evrópusambandsins er, ekki síst í landbúnaðarmálum. Vinnumarkaðurinn þar var ekki nægilega þróaður og eðlilega hlaut þá eitthvað að gerast þegar flóðgáttirnar brustu. Það sama gildir í sjálfu sér líka varðandi Búlgaríu og Rúmeníu.

Þegar umræða var hér í þessum sal um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu voru tveir þingmenn sérstaklega efins um að það væri mögulegt fyrir íslenska þjóð að samþykkja frjálst flæði vinnuafls. Það voru aðallega hæstv. núverandi utanríkisráðherra og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Sjónarmið þeirra voru fyllilega gild. Það sem ég hef lesið í ræðum þeirra og er fyrst og fremst spurningin er að um er að ræða þjóðir þar sem vinnumarkaðurinn og efnahagskerfið var rýrara, takmarkaðra, en við búum við og höfum búið við á Norðurlöndum.

Það hefur verið vandamálið varðandi þær nýju þjóðir sem eru að koma inn í Evrópusambandið að þess hefur ekki verið gætt að þróa heimamarkaðinn nægjanlega áður en búið væri til, í fyrsta lagi, vandamál fyrir heimamarkaðinn með því að hæfasta fólkið væri farið og í öðru lagi að valda þeim þjóðum vandamálum sem við þurfa að taka og eru ekki undir það búnar. Hæft fólk, menntað fólk, sem hefur ekki og fær ekki störf við hæfi í þeim löndum sem það kemur til lætur bjóða sér ýmislegt og jafnvel verstu störfin sem viðkomandi landsmenn eru ekki tilbúnir að vinna, jafnvel undir þeim lágmarkslaunum sem eru ákveðin í kjarasamningum. Það eru hin félagslegu undirboð sem margir vita að því miður hafa viðgengist í landinu.

Takmarkanirnar eru fyrst og fremst réttlætanlegar til þess að heimamarkaðurinn sé byggður upp með eðlilegum hætti í þessu ríki. Þess vegna áttum við að framlengja frestinn varðandi önnur ný ríki Evrópusambandsins, og reyndar kannski fleiri þjóðir — í Bretlandi hafa menn áttað sig á því að þeir hefðu átt að gera það líka — vegna þess að markaðurinn í þeim ríkjum var ekki orðinn nógu þróaður, nógu traustur til þess að standa undir, móta og byggja upp öflugt efnahagskerfi í löndunum. Hættan við það að heimila þennan hluta fjórfrelsisins var fyrst og fremst til þess þá að draga mátt úr efnahagskerfi þessara ríkja.

Þess vegna lít ég á það sem raunverulegu röksemdina fyrir því að það sé eðlilegt að samþykkja aðlögun eins og þessa að það sé til þess að byggja upp heimamarkað í þessum ríkjum. Við höfum að sjálfsögðu lítinn mátt í því sambandi en það er forsenda þess að eðlilegir hlutir geti skapast, eðlileg þróun geti verið í þessari álfu, eðlileg þróun verði innan Evrópska efnahagssvæðisins, að slíkt gerist. Það er jú markmiðið með bandalaginu, markmiðið með þeim sjónarmiðum sem liggja á bak við, að það verði einsleitt samfélag þar sem fólk búi við svipuð kjör þar sem í sjálfu sér þurfa ekki að vera þjóðflutningar landa í milli. Það sem hefur verið að gerast er vegna vanhugsaðra aðgerða hjá herrunum í Brussel sem við erum hugsanlega að súpa seyðið af og þurfum þar af leiðandi að taka á.

Forsendan er sem sagt fyrst og fremst spurningin um það og, sem ég tel mikilvægt, að reynt verði að byggja upp heimamarkaði þeirra ríkja sem um er að ræða. Ef það er viðhorf og vilji íslenskra stjórnvalda hafa þau sett stefnu sína í eitthvert vitrænt samhengi. En ég hef hvorki heyrt það frá hæstv. utanríkisráðherra, hæstv. félagsmálaráðherra né formanni utanríkisnefndar að eitt eða neitt af þessu tagi væri forsendan eða mótaði þá afstöðu sem varð til þess að leggja fram þessa tillögu.

Ég átta mig í raun ekki á hvað það þá er. Eins og frumvarpið er hér lagt fram, sem og greinargerðin, gildir í raun það sama og ætti að gilda það sama gagnvart öllum öðrum nýju Evrópusambandsríkjunum. Ég spyr þar af leiðandi: Hvaða önnur sjónarmið gilda gagnvart Eystrasaltsríkjunum? Gagnvart Póllandi? Eða gagnvart Rúmeníu og Búlgaríu? Svarið er: Það er enginn munur. Eina spurningin er þessi: Eru markaðir Búlgaríu og Rúmeníu það vanþróaðir að það réttlæti ákvörðunina að einhverju leyti? Og svarið er: Sennilega er það ekki réttlæting miðað við sum hinna ríkjanna.

Ástæða þess að ég styð þetta frumvarp er að ég tel að það þurfi að byggja upp öflugri markaði á heimaslóðum í þessum ríkjum. Ég tel að það hefði líka þurft að vera lengri aðlögunartími og hann nýttur í öðrum fyrrum Austur-Evrópuríkjum til þess að þau kæmust fyrr í þá stöðu að verða samstiga og jafnfætis öðrum ríkjum Evrópusambandsins. Það er markmið að þróunin geti orðið samhliða einsleit í öllum ríkjunum og til þess að það geti átt sér stað verðum við að geta þróað heimamarkað þessara ríkja á eðlilegan hátt.

Aðalatriðið fyrir okkur er að gæta þess að hér verði ekki sprenging á vinnumarkaðnum og að við getum tekið á móti því fólki sem hingað kemur með sóma. Gætum þess að taka vel á móti okkar minnstu bræðrum eins og okkur ber að gera.