134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[16:50]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Árna Páli Árnasyni að að sjálfsögðu er þetta spurning um velsæld. Þangað leitar fólkið sem velsældin er fyrir hendi. Þó vakna spurningar varðandi t.d. Bretlandseyjar, af hverju jafnmikill fólksstraumur hefur verið frá ríkjum Austur-Evrópu þangað í mjög óvisst atvinnuástand. Það er a.m.k. betra en það ástandið sem fólkið er að flytja úr.

Varðandi það að þetta frumvarp sé fyrst og fremst flutt til að búa í haginn fyrir móttöku þá er það bara ekki þannig. Það er ekki uppleggið í frumvarpinu. Þar er verið að tala um íslenska vinnumarkaðinn og það er meginatriðið í því sem kemur fram í greinargerðinni.

Þegar fjallað er um í V. kaflanum um frjálsa för launþega þá er verið að tala um íslenska vinnumarkaðinn, hvað hann sé viðkvæmur. Um aðlögun hans og um takmarkanir vegna þeirra hagsmuna sem þar er um að ræða. Það er höfuðatriðið en ekki að það skipti einhverju sérstöku máli varðandi það að búa í haginn að opna þessa rifu varðandi þennan takmarkaða hóp fólks frá Búlgaríu og Rúmeníu.

Það er að sjálfsögðu það sem um er að ræða, og það veit hinn virðulegi þingmaður Árni Páll Árnason jafn vel og ég að við erum komin í ógöngur með því að hafa ekki takmarkað frjálst flæði launafólks frá hinum nýju ríkjum Evrópusambandsins. Menn eru því að reyna að nýta þetta vegna þeirra vandamála.