134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[16:58]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Bjarni Harðarson, nú er það þannig að menn leggja mismunandi skilning í orð og orðanotkun. (Forseti hringir.) Það er nú einfaldlega þannig að með þessu orðavali mínu var ég ekki með einum eða neinum hætti að gera lítið úr því fólki sem hingað hefur komið, því harðduglega fólki og vafalaust hefði mátt finna betri orð heldur en „að aðlaga“.

Ég var hins vegar að tala um að við gæfum því fólki sem hingað kæmi möguleika á að komast inn í íslenskt samfélag og njóta allra réttinda, fá þekkingu til þess að geta notið allra réttinda. Ég kalla það að aðlagast íslenskum þjóðfélagsaðstæðum. (Gripið fram í.) Já, ég er að tala við þig. (Forseti hringir.) Ég tala um það að aðlagast íslenskum þjóðfélagsaðstæðum. Það er að tala um fólk af virðingu.

Ég get ómögulega skilið að það sé eitthvað virðingarleysi fólgið í því að tala um að gefa fólki möguleika á sömu réttindum, sömu möguleikum og sömu tækifærum og þeir sem búa í landinu fyrir. Ég tala um að aðlaga fólk sem hingað er að koma alveg eins og ég ef ég fer til Frakklands, þá þarf ég að aðlaga mig að þeim aðstæðum sem þar eru þótt ég sé ekki frá vanþróuðu ríki.

Ég er ekki að tala um vandamálafólk, síður en svo. Ég er ekki að tala um að fólk sé að koma frá vanþróuðum ríkjum. Það er akkúrat ekki það sem var með einum eða neinum hætti hægt að skilja í því sem ég sagði. Ef einhver vill reyna að túlka orð mín svo þá er það útúrsnúningur. Ég er einfaldlega að tala um að í fyrsta lagi búum við við viðkvæman vinnumarkað. Við þurfum að gæta þess að hafa alltaf fulla stjórn á málum og í öðru lagi berum við skyldur gagnvart öllum sem hingað eru komnir. Jafnar skyldur gagnvart öllum um að þess verði gætt að allir hafi mannréttindi. Takk fyrir.

(Forseti (EMS): Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að honum ber að beina orðum sínum til forseta en ekki til einstakra þingmanna.)