134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[17:10]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þeir sem sátu á þingi á vordögum 2004 vissu af því að sett voru ákvæði um aðlögun inn í lög þá og síðan endurtók sagan sig á vordögum 2006 og þá stóðum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs upp, gagnrýndum að aðlögunartíminn hefði ekki verið nýttur og sama gilti um skorinorða þingmenn Samfylkingarinnar.

Það er fátt um svör hvernig eigi að nýta þennan aðlögunartíma þannig að ég vil fara sértækt í málið og spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hún sé tilbúin að beita sér fyrir því að atvinnurekendum sé gert skylt við ráðningar útlendinga að þeir séu með fullnægjandi tryggingaskjöl frá heimalandi sínu en ella gert að taka tryggingu hjá íslenskum tryggingafélögum eða öðrum áður en til ráðningar kemur og til starfa hér á landi. Hér eru fjölmargir ótryggðir einstaklingar í vinnu á fyrstu sex mánuðum starfstímabilsins og ég hef séð allt of mörg óþolandi dæmi um réttarstöðu þeirra. Þarna er sértækt mál sem ég spyr um, sem ætti að vera auðvelt fyrir hæstv. ráðherra að svara.

Í öðru lagi: Mun hæstv. utanríkisráðherra beita sér fyrir því að lögum um starfskjör launafólks verði breytt í þá veru að þau nái til starfsmanna starfsmannaleigna og allra þeirra sem starfa hér á landi undir hvaða kringumstæðum það svo er? Það er brýnt að þessar skýringar komi fram, sérstaklega varðandi tryggingamálin og ég vænti þess að hæstv. ráðherra gefi þingheimi skýr svör við þessum tilgreindu atriðum sem ég hef hér nefnt.