134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[17:16]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að hlýða á hæstv. utanríkisráðherra hér við lok þessarar umræðu, einkum og sér í lagi vegna þess að hæstv. ráðherra tókst að skauta algjörlega fram hjá öllum þeim spurningum sem hér voru settar fram og varða stefnuyfirlýsingu Samfylkingarinnar á liðnu kjörtímabili og sérstaklega í kosningabaráttunni og afstöðuna síðan þegar inn í ríkisstjórn er komið.

Þannig svaraði hæstv. ráðherra því ekki hvort stóriðjustefnan hefði nú verið endurlífguð fyrir atbeina Samfylkingarinnar með því að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sem formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur gert núna, í gær, nýja samninga um orkusölu til tveggja nýrra álfyrirtækja. Ekki var heldur svarað þeirri spurningu hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur um hvað liði áformum Samfylkingarinnar um stóriðjuhlé sem kynnt var í kosningabaráttunni og ekki heldur þeirri spurningu þingmannsins hvað liði þeirri stefnumörkun Samfylkingarinnar að atvinnuleyfi fylgdi einstaklingum en ekki atvinnurekendum. Þetta var athyglisvert, herra forseti.