134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[17:17]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var að mæla hér fyrir frumvarpi um aðild Búlgaríu og Rúmeníu að hinu Evrópska efnahagssvæði. Hér fór ekki fram almenn umræða um stefnu ríkisstjórnarinnar í hinum ýmsum málum. Ég hef reynt að svara þeim spurningum sem hér komu fram og lutu að því máli sem ég mælti fyrir.

Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sé að spyrja um stóriðjustefnuna í ljósi þess hvort hér verði áframhaldandi þensla á íslenskum vinnumarkaði. Það skal sagt af því tilefni að eins og reyndar hefur komið fram opinberlega munu bæði iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra fara yfir þessi mál með þeim aðilum sem hafa uppi áform, annars vegar um virkjanir og hins vegar um uppbyggingu stóriðju, og reyna að átta sig á því hvernig þau mál standa, hvaða lögformlegu stöðu þessi virkjana- og stóriðjuáform hafa og gera nákvæmlega það sama og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í fjölmiðlum að hann mundi gera ef hann færi í ríkisstjórn eftir þessar kosningar.