134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[17:19]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er vissulega til umræðu aðild Búlgaríu og Rúmeníu að hinu Evrópska efnahagssvæði. Ég sagði í upphafi máls míns að ég ætlaði einungis að fjalla um einn þátt þess máls, þ.e. íslenskan vinnumarkað og tengslin við þann samning og þá fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að fresta aðgangi Rúmena og Búlgara að íslenskum vinnumarkaði. Af því leiðir að íslenskur vinnumarkaður er hér að sjálfsögðu til umræðu með kostum sínum og göllum, með þeirri þenslu sem stóriðjustefnan hefur skapað og ég tel, hæstv. forseti, að hæstv. utanríkisráðherra ætti ekki að þurfa að veigra sér við að svara spurningum þar að lútandi né heldur um stefnu síns flokks í þeim efnum.

Það er gott ef farið verður yfir þessi mál á vegum ríkisstjórnarinnar, það er gott að heyra að hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. umhverfisráðherra muni fara yfir þetta með hlutaðeigandi aðilum og ég legg til, herra forseti, að þau byrji á því að halda fund með hæstv. heilbrigðisráðherra til að spyrjast fyrir um áform hans hvað varðar orkusölu og uppbyggingu stóriðju í Helguvík og Straumsvík.