134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

viðurkenning Íslands á ríkisstjórn Palestínu.

3. mál
[17:21]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um viðurkenningu Íslands á ríkisstjórn Palestínu. Flutningsmenn ásamt með mér eru aðrir hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir og Þuríður Backman.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að viðurkenna réttkjörna ríkisstjórn á heimastjórnarsvæði Palestínu og taka upp við hana eðlileg samskipti. Jafnframt beiti hún sér á alþjóðavettvangi fyrir því að önnur ríki geri slíkt hið sama.“

Sá er bakgrunnur þessa máls að í kjölfar almennra kosninga á yfirráðasvæði Palestínumanna í janúar 2006 tók þar við völdum ný ríkisstjórn Hamas-samtakanna eftir kosningasigur þeirra í kosningum sem alþjóðlegir eftirlitsaðilar úrskurðuðu að hefðu í aðalatriðum farið vel og lýðræðislega fram. Hins vegar brá svo við að þrátt fyrir að þessar kosningar hafi verið að kröfu alþjóðasamfélagsins um að lýðræðislega kjörin stjórnvöld þyrftu að fara með forsvar fyrir Palestínumönnum neituðu Ísraelar í reynd að viðurkenna úrslit kosninganna og hafa með stuðningi Bandaríkjanna og miklum þrýstingi reynt að fá alþjóðasamfélagið til að sniðganga með öllu hina nýkjörnu ríikisstjórn. Ísraelsstjórn hefur fryst greiðslur til Palestínumanna og heldur eftir skatttekjum sem hún innheimtir og henni ber að skila til heimastjórnarsvæðanna. Bætir það að sjálfsögðu gráu ofan á svart í því ófremdarástandi sem þarna ríkir og eykur á þrengingar á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna og er tæpast hægt að líkja þessu við annað en efnahagslegt hrun, ólöglegar efnahagslegar refsiaðgerðir sem bitna á svæðum þar sem fyrir er gríðarleg nauð og menn eru meira og minna orðnir háðir matargjöfum og fjárstuðningi frá hjálparsamtökum og utanaðkomandi aðilum.

Þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður og miklu spennu í samskiptum höfuðfylkinga Palestínumanna, sem eru Hamas-samtökin og Fatah-hreyfingin, hefur þó tekist þar samkomulag um myndun þjóðstjórnar og er það framlag Palestínumanna til þess að reyna að öðlast viðurkenningu alþjóðasamfélagsins og fá lífsnauðsynlega aðstoð og stuðning til að lina þjáningar og skort íbúa Palestínu og fá það viðurkennt að þeir fari með forsvar fyrir Palestínumenn og séu réttir aðilar til að annast um málefni þeirra út á við.

Fleiri aðilar eiga reyndar aðild að þessari þjóðstjórn sem norski utanríkisráðherrann Jonas Gahr Støre hefur kallað sögulegan viðburð og má þar nefna að til viðbótar hinum 119 þingmönnum sem kjörnir eru af listum Hamas- og Fatah-hreyfinganna á 132 manna þingi hafa aðrar fylkingar eins og Þjóðarfrumkvæði og Þriðja leiðin lýst yfir stuðningi eða eru beinir aðilar að ríkisstjórninni og aðeins þrír þingmenn af 132 greiddu atkvæði gegn stjórninni. Þannig er t.d. Íslandsvinurinn Mustafa Barghouti frá Þjóðarhreyfingunni eða Þjóðarfrumkvæðinu ráðherra í ríkisstjórninni og fjármálaráðherrann Salem Fayyad kemur úr Þriðju leiðinni sem er þriðja stærsta fylkingin á eftir Hamas og Fatah. Um raunverulega þjóðstjórn er að ræða sem nýtur stuðnings nánast alls þingsins í Palestínu.

Norðmenn riðu á vaðið um miðjan marsmánuð og tilkynntu að þeir hygðust taka upp eðlileg samskipti við þessa réttkjörnu ríkisstjórn, taka upp stjórnmálasamband við Palestínu og eiga við stjórnina venjuleg hefðbundin stjórnmála- og viðskiptasamskipti í trausti þess að Palestínumenn muni síðan virða gerða samninga, fordæma ofbeldisaðgerðir og viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis. Þetta er þó ekki gert að fyrirframskilyrði heldur nálgast Norðmenn einfaldlega málin þannig að það sé öllum fyrir bestu að eiga samvinnu og samstarf við þessi stjórnvöld í Palestínu, það er ekki öðrum til að dreifa og þau styðjast við ótvíræðan meiri hluta og hafa nánast allt palestínska þingið á bak við sig.

Í framhaldi af þessu gerðist reyndar það að utanríkisráðherra Íslands sem þá var, Valgerður Sverrisdóttir, lýsti því yfir að hún teldi eðlilegt að fylgja frumkvæði Norðmanna og var því vel tekið af flestum þeim sem tjáðu sig um málið. Þannig var t.d. í viðtali við Fréttablaðið 1. maí sl. leitað álits fulltrúa stjórnarandstöðunnar sem þá var og haft eftir okkur, þeim sem hér stendur, hæstv. núverandi utanríkisráðherra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Guðjóni Arnari Kristjánssyni, formanni Frjálslynda flokksins, að við teldum þetta meira og minna sjálfsagðan hlut og styddum þessi áform utanríkisráðherrans. Þannig er haft eftir mér í þessu viðtali að ég sé þessu algerlega sammála, hæstv. utanríkisráðherra sem nú er, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, segist telja fulla ástæðu til þess og Guðjón Arnar Kristjánsson segir að sjálfgefið sé að þetta sé gert að því tilskildu að þetta verði til góðs fyrir friðarferlið.

Tillagan gengur sem sagt ósköp einfaldlega út á það að við Íslendingar fylgjum frumkvæði Noregs og tökum jafnframt upp baráttu fyrir því á alþjóðavettvangi að tekin verði upp eðlileg samskipti við réttkjörin stjórnvöld í Palestínu. Veruleikinn er sá að Palestínumenn eru kúguð og undirokuð þjóð sem sætt hefur miklu harðræði, býr við ólöglegt hernám og ólöglega landtöku af hálfu hernaðarstórveldisins Ísraels, með stuðningi Bandaríkjamanna, og hefur gert svo um meira en hálfrar aldar skeið. Það er augljóst að forsenda þess að brugðið geti til betri tíðar og að friður komist á á svæðinu fyrir botni Miðjarðarhafs er að sjálfsögðu að forsvarsmenn þjóðanna sem þar búa séu viðurkenndir og geti komið fram sem talsmenn þeirra í öllum samskiptum og þá ekki síst í friðarumleitunum.

Ísland getur með þessu, þótt í litlu sé, lagt sitt litla lóð á réttar vogarskálar og fylgt þarna djarflegu frumkvæði Norðmanna sem hafa sögulegu og miklu hlutverki að gegna fyrir botni Miðjarðarhafsins, samanber frumkvæði þeirra að Óslóarsamningunum á sínum tíma og það þarf enginn að efast um að sú afstaða sem Norðmenn þarna tóku sé að vel ígrunduðu máli, byggi á viðamikilli þekkingu þeirra á þessum flóknu deilumálum og sé af þeirra hálfu hugsuð sem jákvætt skref og liður í því að reyna að opna einhverja glugga og kveikja einhverjar vonir um að til betri tíma geti brugðið í þessum efnum.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, virðulegur forseti, ég tel að tillagan skýri sig sjálf og að allar forsendur í kringum hana séu ljósar. Það væri gleðiefni ef Alþingi sæi sér fært að taka stefnumótandi ákvörðun í þessum efnum hér á þessum vordögum. Í öllu falli væri til bóta þótt ekki væri annað en að skýr vilji kæmi fram hjá hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum og hvort núverandi utanríkisráðherra sé sama sinnis og sú sem á undan gegndi embættinu, þ.e. að þetta beri að gera, en þá er náttúrlega einnig ljóst og mikilvægt að fram komi að hinn stjórnarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, leggi ekki áfram stein í götu þess að íslensk stjórnvöld geti stigið þetta skref og tekið upp stjórnmálasamband og eðlileg samskipti við réttkjörin stjórnvöld í Palestínu.

Ég legg svo til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. utanríkismálanefndar.