134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

viðurkenning Íslands á ríkisstjórn Palestínu.

3. mál
[17:29]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs í tilefni af þessari þingsályktunartillögu okkar í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég tel að ákveðið lag hafi nú skapast í þessum efnum með það að viðurkenna réttkjörna ríkisstjórn Palestínu og til þess að setja málið í samhengi tel ég ekki úr vegi að rifja aðeins upp sögulegt samhengi hlutanna.

Við vitum auðvitað að Palestína varð til sem pólitísk eining árið 1922 en þá varð hún til sem verndarsvæði breska heimsveldisins. Allt síðan þá, frá fyrri hluta 20. aldar, hefur innflutningur gyðinga til Palestínu aukist og til ársins 1947 þegar Bretar afsöluðu sér formlega allri ábyrgð á Palestínu og í kjölfar þess var ákveðið af Sameinuðu þjóðunum að skipta landinu í tvennt, í Palestínu og Ísrael, og Jerúsalem yrði undir alþjóðlegri stjórn.

Stofnun Ísraels 1948 olli strax stríði við nágrannalöndin og því stríði lauk með gjörsigri hins nýja ríkis. Það má eiginlega segja að allt síðan þá hafi ástandið á svæðinu verið ein púðurtunna og varð þó enn verra 1967, í sex daga stríðinu fyrir 40 árum, í júní 1967, sem lauk með stórsigri Ísraela og þá lagði her þeirra undir sig allan Sínaískagann, Vesturbakka Jórdanár, Gaza-svæðið, Gólanhæðir í Sýrlandi, landsvæði sem var mun stærra en Ísrael var í upphafi stríðs.

Þetta hernám hefur nú staðið í 40 ár og Sameinuðu þjóðirnar hafa margoft ályktað gegn því en Ísraelsstjórn hefur sniðgengið þær ályktanir. Þessi sami tími, undanfarin 40 ár, hefur einkennst af baráttu Palestínumanna fyrir landi sínu. Þær baráttuaðferðir hafa verið af ýmsum toga og ekki allar góðar, en hins vegar er nauðsynlegt að hafa þetta sögulega samhengi í huga þegar við horfum núna á ástandið á þessu landsvæði.

Við vitum líka að þarna hélt ástandið áfram að versna, t.d. í kringum 1980. 1978 réðst Ísrael inn í Líbanon, 1982 var gerð önnur innrás og á þessum tíma áttu sér stað fjöldamorðin í Sabra og Shatila þar sem 3.000 Palestínumenn voru myrtir með vitorði og aðild Ísraelshers. Þetta er bara til að varpa ljósi á hvernig ástandið hefur verið.

Fyrir 20 árum hófst vopnuð barátta Palestínumanna á Vesturbakkanum sem við þekkjum undir nafninu „intifada“ og lýst var yfir stofnun sjálfstæðs ríkis. Mikilvægt skref náðist hins vegar í friðarátt 1993 í Ósló með samkomulagi Palestínumanna og Ísraelsmanna. Þá varð loksins til einhvers konar ríki Palestínumanna á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu sem náði þó líklega aðeins yfir ríflega fimmtung þess landsvæðis sem Ísrael hernam 1967.

Því miður hefur orðið mikill afturkippur í þróun mála frá árinu 2000 og fjöldamargir — opinberar tölur eru nú óljósar á þessu svæði af því að öll grunngerð samfélagsins er í rúst — a.m.k. 3.000 Palestínumenn hafa látið lífið og þar af 500 börn og samfélagið er í rúst enda búið að ráðast gegn og fella flestar grunnstoðir þess. Það hefur verið haldið áfram að reisa landnemabyggðir á svæðum Palestínumanna og árið 2004 fór Ísraelsstjórn að reisa hinn alræmda aðskilnaðarmúr á Vesturbakka Jórdanár en sem kunnugt er kvað Alþjóðadómstóllinn í Haag upp þann úrskurð að hann stæðist ekki alþjóðalög og að sá hluti hans sem þegar hefði verið reistur skyldi rifinn. Því hefur reyndar ekki verið fylgt fyllilega eftir enn þá.

Í þingkosningunum í janúar 2006 unnu hin herskáu Hamas-samtök sigur og fengu meiri hluta á þingi Palestínu. Auðvitað komu þau úrslit mörgum á óvart, sýndu að kosningabærir íbúar Palestínu tóku herskáa Hamas-liða fram yfir hófsamari öfl eins og Fatah-hreyfinguna sem hefur lagt áherslu á samningaleiðina. Alþjóðlegir eftirlitsmenn, þeirra á meðal Jimmy Carter, fyrrum Bandaríkjaforseti, sögðu framkvæmd kosninganna til fyrirmyndar, ekki síst miðað við að landið er í hernámsástandi og að önnur lönd í þessum heimshluta mættu margt læra af þessum kosningum og framkvæmd þeirra. Í framhaldinu, eins og fyrri ræðumaður kom inn á, var mynduð þjóðstjórn sem ekki aðeins stærstu stjórnmálaöflin, Hamas og Fatah, sameinuðust um heldur einnig smærri flokkar á löggjafarþinginu. Þetta er mjög merkilegt skref í þessu landi, hvernig menn hafa reynt að ná saman um það að ná sátt í landinu um stjórn og sýnir skýran vilja til þess að þarna virki stjórnsýslan.

Sagan sýnir okkur líka að það hefur verið reynt að einangra Palestínumenn, gera þeim ómögulegt að búa í landi sínu með því að rífa niður allt það sem gerir samfélag að samfélagi, menntakerfi, heilbrigðiskerfi, samgöngur, löggæslu, ráðist hefur verið að öllum þessum grunnstoðum. Stærstur hluti palestínsku þjóðarinnar, yfir 4 milljónir, eru á flótta og hjálpar- og mannúðarstofnanir, þeirra á meðal Sameinuðu þjóðirnar, hafa ítrekað skilað skýrslum þar sem ástandið á herteknu svæðunum er sagt hörmulegt og hafa versnað enn með viðskiptabanni Ísraels og Vesturlanda.

Við vísum í tillögu okkar í frumkvæði Noregs í þessum efnum en Noregsstjórn hefur tekið frumkvæði í að rjúfa þessa einangrun með því að viðurkenna þjóðstjórnina tafarlaust og aflétta viðskiptabanninu. Þetta er mjög mikilvægt skref í því að efla lýðræðið í Palestínu og gera þjóðstjórnina að virkum þátttakanda í alþjóðafélaginu, þetta er lífsnauðsynlegt skref fyrir þessa þjóð. Þannig geta vestrænar þjóðir stuðlað að því að gera stjórnarhætti þarna gagnsærri og lýðræðislegri, og síðast en ekki síst gera Palestínumönnum kleift að kaupa og selja vörur, stunda frjáls viðskipti, sem maður skyldi ætla að margir hér í þessum sal gætu tekið undir.

Við leggjum því til að Ísland fylgi þessu fordæmi þegar í stað. Það væri gríðarmikilvægur skerfur til friðar og mannúðar í landi sem hefur búið við hernám í 40 ár því að þegar upp er staðið snýst málið um það að þarna þarf fyrst og fremst að byggja upp samfélag, það þarf að reisa þær grunnstoðir sem hverju samfélagi eru nauðsynlegar þannig að fólk geti búið við öryggi, komist milli staða í öllum erindagjörðum sínum, treyst því að heimili þess verði ekki jöfnuð við jörðu að nóttu til, fólk geti alið börnin sín upp við sómasamlegar aðstæður og þau geti sótt skóla, fái tækifæri til að mennta sig og ná árangri í lífinu. Við Íslendingar getum lagt okkar af mörkum til þess að svo megi verða með því að rjúfa einangrun Palestínu, viðurkenna réttkjörna ríkisstjórn Palestínu á heimastjórnarsvæðinu og taka upp við þetta land eðlileg samskipti.

Ég hvet eindregið til þess að þingmenn íhugi þetta mál vandlega og styðji tillöguna.