134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

viðurkenning Íslands á ríkisstjórn Palestínu.

3. mál
[17:37]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu er mér að mörgu leyti svolítið skylt hafandi dvalið eða búið um skeið á Vesturbakkanum einmitt í flóttamannabúðum Palestínumanna fyrir aldarfjórðungi síðan og fylgst með því að síðan þá hefur ástandið á þessu svæði bara versnað.

Mál þetta allt saman, svo fjarlægt sem það kannski virðist okkur á hinu háa Alþingi, er íslensku þjóðinni líka mjög skylt. Örlög palestínsku þjóðarinnar og saga Ísraelsríkis og Palestínu eru mál sem íslenska lýðveldið getur alls ekki látið sem því komi ekki við. Það var fulltrúi Íslendinga hjá Sameinuðu þjóðunum, Thor Thors, sem flutti tillögu 1947 um þá skiptingu sem þá átti að leggja til grundvallar skiptingunni milli Palestínumanna og Ísraelsmanna. Með því frumkvæði, sem auðvitað var umdeilanlegt á þeim tíma en ég held að hafi þó verið rétt í ljósi sögunnar, sköpuðum við okkur líka mikla ábyrgð gagnvart báðum þessum þjóðum, Ísraelsmönnum og Palestínumönnum. Við höfum að mörgu leyti síðan þá staðið ágætlega undir þeim væntingum, allt þar til nú.

Íslendingar voru síðan með fyrstu þjóðum til að viðurkenna Ísraelsríki árið eftir en við vorum líka, ég held ég fari rétt með það, langfyrstir vestrænna ríkja til að viðurkenna stjórn Palestínumanna meðan hún hafði enn aðsetur í Túnis og þáverandi forsætisráðherra Íslendinga, Steingrímur Hermannsson, langfyrstur forsætisráðherra til þess að fara í opinbera heimsókn til stjórnar Palestínumanna í Túnis.

Þetta allt skiptir mjög miklu máli í því samhengi sem hér er verið að tala um. Við getum endalaust velt fyrir okkur kostum þess og göllum að viðurkenna stjórn þar sem við sögu koma jafnherská samtök og Hamas-samtökin og ég skil alveg að það standi í mörgum á Vesturlöndum að gera það en við skulum horfa til sögunnar. Þegar við viðurkenndum Ísraelsríki þá viðurkenndum við ríki sem byggði herstyrk sinn á her sem stofnaður var upp úr skæruliðasamtökum, sömu skæruliðasamtökum og fóru með morðum og hryðjuverkum að fjölda þorpa í Palestínu. Dayr Yasin er kannski þekktasta dæmið en þau eru mörg önnur. Ísraelsríki hefur allt til okkar daga verið skipað stjórnmálamönnum sem áttu sér harla erfiða sögu sem fyrrverandi skæruliðar, áttu sér sögu sem vopnaðir borgarskæruliðar sem skirrðust ekki við að taka þátt í morðum og morðið þar á Bernadotte, morð á breskum hermönnum og morð á konum og börnum eru þar fjölmörg í sögu þessara manna, Shamirs, Begins, Moshe Dayans, jafnvel Ben Gurions og auðvitað í sögu allra þeirra herforingja sem þetta ríki leiddu.

Hamas-samtökin eiga sér vitaskuld ógeðfellda sögu, sögu vopnaðrar baráttu sem við eigum mjög erfitt með að sættast við. Fatah-samtök Yassers Arafats áttu þessa sögu líka. Vesturlönd sættust við sögu Ísraelsmanna og hryðjuverka sem þeir höfðu staðið að, við sættumst við þessa sögu hjá Fatah-samtökunum og það er í rauninni enginn stigsmunur á því að ganga sömu leið gagnvart Hamas-samtökunum sem hafa á undanförnum árum sýnt mjög mikinn vilja til að snúa til annarrar stefnu, borgaralegri stefnu og friðvænlegri stefnu en þeir áður fylgdu.

Ég held að frumkvæði Íslendinga í þessu máli skipti raunverulegu máli á heimsmælikvarða, að frumkvæði skandinavísku þjóðanna sé raunverulega eitthvað sem geti haft áhrif í Miðausturlöndum. Auðvitað eru aðstæður gagnvart hryðjuverkahópum jafnvel enn erfiðari í dag en þær voru þegar við stigum þetta skref, þegar Steingrímur Hermannsson, einna fyrstur vestrænna stjórnmálaleiðtoga, steig þetta skref gagnvart hinum vopnaða Yasser Arafat og gekk á hans fund. Til eru myndir af því þar sem þeir ganga saman og hann með skammbyssurnar í beltinu, þ.e. ekki Steingrímur heldur hinn. Og það eru kannski þær aðstæður núna að okkur finnst enn erfiðara að viðurkenna einhver þau öfl sem styðja borgaralegt ofbeldi eins og Hamas-samtökin hafa gert, sem aftur tengist svo ofbeldisverkum eins og þeim sem við þekkjum hvað best frá 11. september en hafa líka orðið fjölmörg síðan. Þetta mál er alls ekkert einfalt en ég held að við verðum að horfa þannig á það að sú kúgun og það feikilega óréttlæti sem palestínska þjóðin er beitt mun aðeins verka til þess að ýta enn frekar undir öfgamenn á þessu svæði og það er mikilvægt að taka við þeirri útréttu sáttahönd sem Palestínumenn hafa gefið þarna með myndun þjóðstjórnarinnar.

Ég harma það svolítið að ekki skuli hafa verið leitað samkomulags allra flokka um flutning þessarar tillögu, sem ég tel í alla staði mjög góða, því að ég held að hægt sé að ná slíku samkomulagi. Þessi tillaga er efnislega samhljóða leiðara Morgunblaðsins fyrir að ég held liðlega ári, ég man ekki alveg dagsetninguna á því. Sú krafa, sú hugmynd að við höfum ekkert val gagnvart lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum í Palestínu annað en að virða niðurstöðu kosninganna er því engin sérskoðun þeirra sem eru til vinstri í pólitík eða sérskoðun þeirra sem eru öndverðir Bandaríkjunum í pólitík, það er skoðun lýðræðisins og það er þess vegna stefna sem við eigum að fylkja okkur öll um. Ég skora á þingmenn allra flokka að gera það og gera þetta ekki að pólitísku bitbeini. Minnt var á það áðan að fyrir kosningar var eining um þetta meðal (Forseti hringir.) allra flokka nema eins og ég á von á að það takist að ná einingu um þetta mál.