134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

viðurkenning Íslands á ríkisstjórn Palestínu.

3. mál
[18:07]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að það hafi ekki farið fram hjá hv. þingmönnum að ég er hlynntur þessari tillögu. Hún er jákvæð. Ég gerði greinarmun á því hvort gengið væri til verka með því að finna eðlilegan farveg fyrir eðlileg samskipti eða setja fram formlega viðurkenningu sem er miklu afdrifaríkara og flóknara mál í uppsetningu. Ég heyri ekki annað en við hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir séum sammála í þessum efnum.

En þegar maður notar orðalagið „við breytum ekki gangi heimsmála“ þá er það auðvitað svolítið stórt í stinginn tekið. Við getum auðvitað haft áhrif og með öllu sem við gerum, með einu orði, með einu handtaki höfum við áhrif. En við breytum kannski ekki gangi heimsmála. En við getum hjálpað til. Þar eigum við að leggja okkar lið og þess vegna finnst mér þessi tillaga löngu tímabær. Svo langt sem orðalagið nær og ég vil taka undir þá túlkun hæstv. utanríkisráðherra að það þarf að finna þarna ákveðinn flöt sem tengist því að koma á eðlilegum samskiptum. Það er svolítið teygjanlegt en það gefur svigrúm til þess að ganga til verka, hafa samskipti, tala saman og bera saman bækur og vonandi hefur það áhrif til góðs ef menn ganga þá leið.