134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

lög um fjárreiður stjórnmálasamtaka.

[13:39]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir skýr svör og í rauninni afdráttarlausa afstöðu þar sem hann fordæmir það inngrip sem átti sér stað í kosningabaráttuna í vor og að hann telji í ræðu sinni mikilvægt á ný að fara yfir þessa löggjöf. Ég þakka þá umræðu.

Ég sakna þess auðvitað að forustumenn Samfylkingarinnar hafi ekki tjáð sig því að hæstv. forsætisráðherra sagði að þetta DV-blað hefði verið gefið út í þágu stjórnarandstöðuflokkanna. (Gripið fram í.) Það má leiða líkur að því að þetta DV-blað hafi verið skrifað með það í huga að færa hæstv. forseta nýtt fang upp í hjónarúm ríkisstjórnarinnar og að á margan hátt hafi það tekist. En það er önnur saga. Menn geta deilt um svona blöð en sannarlega var þetta blað inngrip í íslenska kosningabaráttu. Ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra, hættan er sú þegar búið er að loka „hinni leiðinni“ að menn ætli þessa leið, þess vegna kannski flokkarnir að eiga sér samtök utan við stjórnmálastarfsemina sem geti með þessum hætti gengið inn í kosningabaráttuna. Það er að mínu viti hættulegt lýðræðinu og ég verð að segja líka að sú meðferð sem hæstv. dómsmálaráðherra sætti, Björn Bjarnason, að geta ekki reist hönd fyrir höfuð sér í því ótrúlega máli sem hæstv. ráðherra lenti í í þessari kosningabaráttu, er líka eitthvað sem ekki er lýðræðisins vegna verjandi. Þess vegna fagna ég hér ummælum hæstv. forsætisráðherra og treysti því að við forustumenn stjórnmálaflokkanna (Forseti hringir.) setjumst yfir þessa atburði og þá löggjöf sem tók gildi 1. janúar sl.