134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

lög um fjárreiður stjórnmálasamtaka.

[13:42]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga atriði en ég verð að segja að það kemur mér töluvert á óvart með hvaða hætti umræður hafa verið hér í dag. Það er vikið að því með hvaða hætti ákveðið dagblað hagaði rekstri sínum og útgáfu rétt fyrir kosningar og það er vikið að því að þar hafi verið skrifað með einhverjum mjög sérkennilegum og sérstökum hætti. Hæstv. forsætisráðherra sagði að það hefði mátt ætla og verið eðlilegt að færa það á reikning stjórnarandstöðunnar.

Þá spyr ég: Hvað vilja menn gera? Eigum við að færa Staksteinaskrif Morgunblaðsins á reikning Sjálfstæðisflokksins, eða leiðaraskrif í því blaði? Eða það sem skrifað er í Fréttablaðið af fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins? Ef menn vilja fara út í þessa umræðu, hvert er þá komin spurningin um tjáningarfrelsið? Hvar er þá spurningin og mörk varðandi eðlilega blaðamennsku? Það er nú einu sinni þannig í þessu þjóðfélagi að við gefum einstaklingunum svigrúm, hvort sem þeir eiga peninga eða ekki því að tjáningarfrelsið gildir fyrir alla. Hversu smekklegt eða ósmekklegt sem okkur kann að finnast framsetningin gildir það þannig að tjáningarfrelsi og málfrelsi er bundið í stjórnarskrá og við getum ekki vikið frá því og við eigum ekki að gera það, heldur styðja við það atriði, jafnvel þótt okkur mislíki það sem sett er fram.

Ég get tekið undir þau efnislegu sjónarmið sem hafa verið sett fram varðandi þá auglýsingu sem vísað var til þar sem vikið var að einum ráðherra í ríkisstjórninni, mér fannst með öllu óeðlilegt að standa þannig að málum en þannig var það, þannig er það og það er heimilt. Við getum ekki komist fram hjá því og við eigum ekki að reyna það.

Ég var ekki sáttur við þá lagasetningu sem sett var á sínum tíma um fjármál stjórnmálaflokkana. Ég hefði viljað hafa hana með öðrum hætti en gott og vel úr því sem komið er. Við búum í lýðfrjálsu landi þar sem fólk hefur málfrelsi (Forseti hringir.) og á að hafa það.