134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[13:50]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg):

Herra forseti. Ég vil bara halda því til haga við afgreiðslu þessa máls að við hana hefur verið brotin áratugahefð í þingsögunni. Formenn stjórnarflokkanna leggja fram tillögu að breyttum þingskapalögum sem ekki hefur gerst um áratugaskeið. Við það er síðan beitt afbrigðum en afbrigðum beitir maður ekki nema eitthvað afbrigðilegt sé í gangi og rík ástæða til. Það var alls ekki í þessu tilviki.

Það segir beinlínis í þingskapalögum: „Fastanefndir skal kjósa á fyrsta fundi hvers þings“ og frá skylduákvæðum grípur maður ekki til afbrigða. Það er merkilegt að hugsa til þess að ríkisstjórnin leggur í stefnuyfirlýsingu sinni upp með það að segjast ætla að eiga gott samstarf við stjórnarandstöðuna. Hæstv. utanríkisráðherra leggur upp í eldhúsdagsumræðu um að eiga þetta góða samstarf og leita sáttaleiðar innan þessara mála.

Það var sáttaleið í þessu máli, algjörlega augljós, kjósa þessar nefndir og kjósa svo að nýju þegar þingskapafrumvarpið hefði verið afgreitt í nefnd með faglegum hætti sem ekki var gert. Það var tekið þar í gegn með offorsi. Þessu vil ég halda til haga og ítreka þann rökstuðning sem ég flutti í 2. umr. um þetta frumvarp.

Ég vona hins vegar svo sannarlega að þetta fall ríkisstjórnarinnar endurtaki sig ekki og sé fararheill í samskiptum við stjórnarandstöðuna. Þarna var einfaldlega unnt að finna sáttaleið og leysa málið til lykta. Það hefði tekið 10 mínútur af tíma Alþingis en í stað þess höfum við eytt löngum stundum í karp um þetta offors og þetta sem ég kalla „lýðræðislegt ofbeldi“.