134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:21]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Um er að ræða fyrstu breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999.

Eins og fram kom í stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 31. maí síðastliðinn munu málefni yngstu og elstu kynslóðanna njóta forgangs hjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ríkisstjórnin mun jafnframt leggja áherslu á að bæta kjör þeirra hópa sem standa höllum fæti og vinna að víðtækari sátt í samfélaginu um aðgerðir, m.a. á sviði félagsmála.

Frumvarp þetta miðar að því að bæta stöðu aldraðra. Það er í fullu samræmi við þann vilja ríkisstjórnarinnar að bæta sérstaklega kjör aldraðra að því er varðar bætur almannatrygginga, svo sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 27. maí síðastliðnum.

Í stefnuyfirlýsingunni segir um almannatryggingar að unnið verði að einföldun almannatryggingakerfisins og að samspil skatta, tryggingabóta, greiðslna úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna einstaklinga verði skoðað sérstaklega til að tryggja meiri sanngirni og hvetja til tekjuöflunar og sparnaðar. Enn fremur segir að dregið verði úr tekjutengingum og skerðingum bóta í almannatryggingakerfinu, m.a. verði skerðing tryggingabóta vegna tekna maka afnumin og skoðað verði hvort undanskilja megi hluta af lífeyrissjóðstekjum eldri borgara skerðingum í almannatryggingakerfinu. Þá segir að stefnt verði að hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna fyrir aldurshópinn 67 til 70 ára og að almennt skerðingarhlutfall í almannatryggingakerfinu lækki í 35%. Að lokum segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að stefnt skuli að því að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum lífeyri frá lífeyrissjóði að lágmarki 25.000 kr. á mánuði.

Virðulegi forseti. Kraftmikið efnahagslíf er forsenda þessara víðtæku umbóta í almannatryggingakerfinu. Eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar er að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu í þágu heimila og atvinnulífs. Framangreindar umbætur verða tímasettar í ljósi þessara markmiða. Gert er ráð fyrir að settur verði á laggirnar samráðsvettvangur milli ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga um aðgerðir og langtímamarkmið á sviði efnahags-, atvinnu- og félagsmála.

Frumvarp þetta gerir ráð fyrir breytingum á ákvæðum 16. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og 26. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Í þessum ákvæðum eru skilgreindar þær tekjur sem lagðar eru til grundvallar við útreikning á fjárhæð ellilífeyris, tekjutryggingar, vistunarframlags, vasapeninga og greiðsluþátttöku vistmanna. Í núgildandi ákvæðum segir að tekjur ellilífeyrisþega og vistmanna af atvinnu skuli hafa áhrif við útreikning á fjárhæðum þessara bóta og greiðsluþátttöku. Í frumvarpinu er lagt til að atvinnutekjur ellilífeyrisþega og vistmanna sem eru 70 ára eða eldri hafi ekki áhrif á fjárhæð bóta eða greiðsluþátttöku. Samkvæmt 1. og 2. gr. frumvarpsins munu atvinnutekjur þeirra frá 1. júlí næstkomandi ekki hafa áhrif á útreikning ellilífeyris, tekjutryggingar, vasapeninga og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins og greiðsluþátttöku vistmanna í dvalarkostnaði á stofnunum fyrir aldraða.

Ég tel að þessi ráðstöfun muni hafa mikil jákvæð áhrif, bæði þjóðhagslega og félagslega. Atvinnulífið og hagkerfið munu í auknum mæli njóta krafta og verðmætrar reynslu þeirra sem eru 70 ára eða eldri. Það er hægt að færa rök fyrir því að tekjuskattur og skattar á aukin umsvif muni að stórum hluta greiða aukinn kostnað ríkisins af þessu frumvarpi en það á auðvitað eftir að koma í ljós ef frumvarpið verður að lögum.

Aldraðir gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu og þeir hafa oft áhuga á að stunda launaða vinnu. Það er vel þekkt að flest fólk á öllum aldri hefur mikla ánægju af vinnu sinni, vinnufélögum og því hlutverki sem það hefur á vinnustaðnum. Það er því mjög persónubundið hvort áhugi er fyrir því að hætta alfarið á vinnumarkaði þegar lífeyrisaldri er náð. Ég tel skynsamlegt að vinnumarkaðurinn bjóði upp á sveigjanleika því aðstæður eldra fólks eru mismunandi eins og allra annarra aldurshópa. Við megum aldrei gleyma því að við erum að fjalla um sjálfstæða einstaklinga.

Ég tel mikilvægt að það myndist sátt í þjóðfélaginu um að bætur úr almannatryggingakerfinu fyrir 70 ára og eldri skerðist ekki vegna atvinnutekna og litið verði svo á að þetta fólk hafi skilað sínu framlagi til samfélagsins. Ellilífeyrir frá lífeyrissjóðunum skerðist almennt ekki vegna tekna af atvinnu en sá er munur á þessum lífeyrisgreiðslum að á bak við ellilífeyrisgreiðslur lífeyrissjóðanna er sjóður eign sem mynduð hefur verið með iðgjöldum sjóðfélaganna og vinnuveitenda þeirra í áratugi. Greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins eru aftur á móti fjármagnaðar af skattfé hverju sinni, svokölluðu gegnumstreymi. Sem dæmi má nefna að þegar um er að ræða tvo launþega sem vinna hlið við hlið verður sá yngri að fallast á það þegar hinn eldri verður 70 ára að hinn síðarnefndi fái óskertar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins.

Áætlað er að árleg útgjöld vegna frumvarpsins verði á bilinu 560–700 millj. kr. Erfitt er að meta kostnaðinn nákvæmlega þar sem ekki liggja fyrir upplýsingar um hve margir ellilífeyrisþegar verða nú fyrir skerðingu bóta eða meiri greiðsluþátttöku vegna atvinnutekna. Í kostnaðaráætlun er reiknað með að atvinnutekjur 70 ára og eldri hafi hvorki áhrif á eigin bætur né hugsanlegar bætur maka frá Tryggingastofnun.

Virðulegi forseti. Ég tel brýnt að frumvarp þetta hljóti afgreiðslu á sumarþinginu þannig að Tryggingastofnun ríkisins geti hafið framkvæmdina 1. júlí 2007. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðisnefndar og 2. umr.